11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Jeg á hjer, eins og hv. deild hefir sjeð, nokkrar brtt. við fjárlögin, og skal jeg aðeins fara örfáum orðum um þær.

Þá eru fyrst á þskj. 486, undir II, tveir liðir, sem hv. þm. kannast við, því að þessar brtt. voru bornar fram við 3. umr., en atvikaðist svo, að aðeins önnur þeirra kom undir atkv., till. undir staflið a. Það var þá svo ítarlega talað um þá till. af hv. frsm. fyrri kafla frv. (ÞórJ), að jeg sje ekki ástæðu til að bæta nokkru þar við, en skal aðeins taka það fram, að því námi, sem þessir tveir menn hafa lagt fyrir sig, er þannig háttað, að það er okkur mjög nauðsynlegt að fá sjerfræðinga í þeim greinum, auk þess sem nám og rannsóknir þess fyrtalda sjálfsagt geta haft allmikla hagkvæma þýðingu fyrir vörumat og ýmislegt fleira. Jeg vænti þess vegna, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja þessar till. báðar.

Þá hefi jeg tekið undir tölulið VIII upp styrk til Halldórs Kiljan Laxness, 1500 kr. Það var samþ. slík upphæð til þessa manns við 3. umr., en hv. Ed. feldi það niður, en jeg geri ráð fyrir, að þessi hv. deild vilji halda við þá styrkveitingu, sem hún hefir samþykt af því að hún hefir þóst kunna að meta hæfileika þessa manns og hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir bókmentir okkar, að hann sje styrktur.

Þá er undir IX. tölul. till. um að hækka styrkinn til frú Soffíu Guðlaugsdóttur til leiklistarnáms. Nefndin hefir lagt til, að henni yrðu veittar 1000 kr., en mjer finst auðsætt, að það komi að litlum notum, vegna þess, hve ferðir til annara landa eru dýrar, svo að sá styrkur myndi aðeins rúmlega nægja fyrir ferðakostnaði, en það er vitanlega ekki tilætlunin, að slíkur styrkur til listamanna skuli vera eyddur þegar út er komið, svo að þeir verði að snúa þegar við aftur; eitthvert gagn verða þeir að hafa af ferðinni, en til þess þurfa þeir að geta haft nokkra dvöl og staðist nokkurn kostnað af námi í öðrum löndum, og jeg verð að segja það, að 1500 kr. er það minsta, sem að gagni getur komið, því að fjárhag hennar mun ekki vera þannig háttað, að hún geti varið miklu úr eigin vasa. Jeg hefði haft tilhneigingu til að gera aðra till. hærri, en ekki sjeð mjer það fært, og vona, að hv. deild verði við tilmælum mínum um að veita henni þennan styrk. Hv. þdm. er af eigin sjón kunnugt, hverja hæfileika þessi kona hefir, og þarf jeg ekki að lýsa því, eða hverja þýðingu það hafi fyrir leiklistina hjer á landi, að ungir og efnilegir leikarar fái tækifæri til að fullkomna sig í þessari grein; því aðeins getur íslensk leiklist þroskast, að listamennirnir eigi kost á að kynna sjer erlenda leiklist og taka sjer fyrirmyndir hjá öðrum þjóðum, sem lengra eru komnar á þeirri braut.

Þá hygg jeg, að jeg eigi ekki fleiri brtt. sjálfur, og er þá aðeins ein brtt. nefndarinnar, sem jeg vildi víkja að. Það er sú till. hennar að fella niður styrkinn til Leikfjelags Akureyrar, 800 kr. Mjer finst, að þegar um svo litla upphæð er að ræða, sje ekki vert að vera að gera ágreining við háttv. Ed., þar sem svo stendur á, að þetta leikfjelag er alveg þess vert, að það sje styrkt. Auk leikfjelagsins hjer, er leikfjelagið á Akureyri það eina leikfjelag, sem haldið hefir uppi árum saman leiklist í sínu heimkynni, óslitið; að vísu hefi jeg ekki sjeð neitt til þess nú í allmörg ár, en mjer er sagt, og jeg trúi því vel, að það muni jafnvel geta talist standa nokkurn veginn jafnfætis Leikfjelagi Reykjavíkur, og er þá ósamræmi í að styrkja það ekki eitthvað líka eins og Leikfjelag Reykjavíkur. En eins og kunnugt er, þá er hið síðarnefnda styrkt með 4000 kr. úr ríkissjóði, gegn 2000 kr. úr bæjarsjóði, en hjer er farið fram á 800 kr. úr ríkissjóði, gegn 400 kr. úr bæjarsjóði Akureyrar. Það er auðvitað, að það verður að ætla Reykjavík meira verkefni heldur en því, enda er styrkurinn í samræmi við það. Jeg vænti því, að hv. deild láti ekki þessa till. nefndarinnar, um að fella þennan styrk niður, ná fram að ganga.