03.03.1925
Neðri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

32. mál, varalögregla

Forsætisráðherra (JM):

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) virtist álita það höfuðgalla á þessu máli, að frv. þetta hefir ekki verið borið undir þjóðina.

Jeg hefi aldrei heyrt það fært sem ástæðu móti máli á þingi, að ekki væri búið að ræða það á þingmálafundum. Aldrei held jeg, að jeg hafi heyrt þm. ganga lengra í því að skjalla kjósendur, að ekki megi hreyfa sig með nokkurt stórmál fyr en búið er að taka það til athugunar á þingmálafundum. Aftur á móti hefi jeg oft heyrt, að ekki megi ráða slíkum málum til lykta fyrri. (ÁÁ: Þetta er einmitt það, sem jeg sagði.) Þessi þjóðarvilji, sem maður heyrir svo oft nefndan, er, eins og Matthías segir, það, sem margir tala um, en fáir skilja. Ef þjóðarviljinn væri móti þessu frv., með þeim skilningi, sem jeg legg í það, þá er málinu nokkuð hætt. En mótmælin frá verkamönnum sanna ekkert í þessu efni, nema það, að þeir vilja ekki hafa hjer vopnað herlið. Þau sanna alls ekki, að þeir sjeu því mótfallnir, að bætt sje við lögreglu landsins.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) var að finna það að frv., að gert sje ráð fyrir, að varalögregla geti komið í hverjum kaupstað. En það stendur í frv.: „eftir því, sem verður við komið“. Jeg sagði í fyrri ræðu minni, að jeg hjeldi ekki að þyrfti nauðsynlega að auka lögreglulið annarsstaðar en í Reykjavík og ef til vill á Siglufirði. Jeg kannast því alls ekki við þessa „vendingu“, sem hv. þm. talaði um og taldi eiga rót sína í því, að þm. annara kaupstaða hefðu ekki álitið slíka lögreglu nauðsynlega í sínu kjördæmi. Jeg get sagt hv. þm. það, að jeg hefi alls ekki átt tal við þá um þetta, vegna þess, að jeg bjóst við, að lögreglu þyrfti að styrkja fyrst og fremst í Reykjavík, og, eins og annað aðalblað Framsóknarflokksins hefir sagt: á Siglufirði. Það er því ekki rjett, að jeg hafi fallið frá neinu.

Hv. þm. kvað ekki þurfa annað en banna útsölu víns, og spurði, hvernig farið hefði um málið, sem rætt var í fyrra, hvort stjórnin vildi ekki leggja niður vínsölu á Siglufirði, og hvort stjórnin mundi geta fallist á það, að hafa aðeins einn vínsölustað í hverjum landsfjórðungi. Hv. þm. hlýtur að vita, að það er hvergi gert ráð fyrir að hafa vínsölu annarsstaðar en í kaupstöðum, en á hinn bóginn í þeim öllum. Jeg hefi lýst því yfir áður, að jeg treysti mjer ekki til að láta leggja niður vínsöluna á Siglufirði.

Hv. þm. talaði um það, að engin beiðni eða áskorun lægi fyrir frá bæjarstjórn Reykjavíkur um að auka lögregluliðið. Það er rjett. Engin bein áskorun hefir komið fram um að stofna varalögreglulið, eins og farið er fram á hjer, en beiðni hefir komið frá bæjarstjórn Reykjavíkur um það, að ríkissjóður legði fram fje til aukningar lögreglu.

Jeg hefi áður sagt það, að það er ekki beinlínis þetta frv., sem jeg er að tala fyrir, heldur það markmið, sem jeg vildi ná með frv.: að efla lögregluna.

Hv. þm. (ÁÁ) hafði heldur hófleg ummæli í ræðu sinni og talaði að nokkru leyti á þeim grundvelli, er jeg bygði á í fyrri ræðu minni. Þó tók hann gönuhlaup, þegar hann fór að tala um heráhlaup, ræningja o. s. frv. Orðið „lögregla“ er svo þekt, og allir menn vita, hvað með því er meint, að það er furðulegt að misskilja frv. á þann hátt, að hjer sje farið fram á her. Hjer hefir, sjálfsagt af ráðnum huga, verið lagður í frv. allur annar skilningur en leyfilegt var. Á Norðurlöndum er, að því er jeg þekki til, lögregla alls ekki vopnuð, nema ef einstakir lögregluþjónar eru sendir til að handsama hættulega menn. Það hefir því frá upphafi verið rangt og óleyfilegt að leggja þann skilning í frv., sem ýmsir hv. þm. hafa þó leyft sjer. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði um það, að jeg væri að halda uppi vörn fyrir frv. Já, að vísu. En jeg hefi margtekið það fram, að jeg haldi ekki fast á frv. á þann hátt, að það þurfi endilega að verða samþykt óbreytt. Jeg legg aðaláhersluna á, að reynt sje að ná því takmarki, er til er ætlast með frv.

Þá þótti mjer hv. þm. (ÁÁ) gera nógu mikið úr því, að við hefðum hreiðrað oss undir vængjum arnarins. Jeg held, að við höfum aldrei kært okkur um það, að treysta mjög mikið á vernd annara sterkari þjóða, enda vill það reynast sumum þjóðum nógu dýrt.

Hv. þm. (ÁÁ) sagði, og bar mig fyrir því, að uppþotið 1921 væri aðalástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið. Þetta er ekki rjett. Jeg sagði ekki annað en það, að sú reynsla, sem þá hefði fengist um það, að lögreglan væri ónóg, væri meðal annars orsök til þess, að frv. væri fram komið. Ástandið væri þannig. Það hefði sýnt sig. Og jeg nefndi nýleg dæmi þess, að lögreglan væri vanmegna, ef nokkuð bæri út af verulega.

Hv. þm. (ÁÁ) talaði líka um það, hvað sú heimild væri rúm, sem lögin veittu stjórninni, og taldi, að það hefði meðal annars vakið andúð gegn þeim. Mintist hann í því sambandi á málalið. Jeg held nú, að ef einhver lærisveinn hans hefði talað um málalið í líku sambandi, þá hefði hann fengið slæma einkunn. Málalið fær mála, en hjer er ekki um neinn mála að ræða. það hafa fleiri hv. þm. talað um þessa rúmu heimild, eins og aldrei hefði þekst slíkt í lögum hjá okkur. En það er öðru nær. Jeg get mint hv. þm. á mörg lög, sem sett voru á stríðsárunum, þar sem stjórninni var gefið svo að segja vald yfir öllum eignum landsmanna. Henni var t. d. heimilað að kaupa skip fyrir margar miljónir kr. Jeg get líka nefnt önnur lög, sem hafa gefið stjórninni miklu meira vald en þetta, t. d. brúalög, sem heimila stjórninni að byggja brýr fyrir margar miljónir, húsabyggingalög, sem heimila henni að byggja hús fyrir fjölda miljóna kr., takmarkalaust. Líka lög, sem heimila stjórninni að láta leggja síma fyrir margar miljónir kr. — alt utan fjárlaga. Þá vil jeg líka minna á það, að ekki er langt síðan að ekki síst hv. Framsóknarflokkur vildi láta þingið samþykkja lög um að gefa stjórninni heimild til að byggja vita fyrir margar miljónir kr., alt fyrir lán og utan fjárlaga. Það þýðir því ekki að segja, að það sje óþekt, að veitt sje jafnvíðtæk heimild og sú, er felst í þessu frv.

En það, sem er örðugast í þessu máli, er það, að vera neyddur til þess að tala um atriði, sem ekki á að þurfa að vera ræða við þessa umræðu, því að það, sem finna má að frv. nú, stendur til bóta við meðferð þingsins, svo að hjer er í rauninni ekki um annað að ræða en það, hvort menn vilji efla lögregluna nokkuð eða ekki. Þeir, sem eru því mótfallnir, verða á móti frv., en hinir, og þar á meðal hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem vilja einhverja breytingu á skipun lögregluliðsins, t. d. skifting þess í toll- og löggæslu, ættu að lofa frv. að ganga til nefndar, til íhugunar og þeirra bóta, sem þeir telja þurfa, svo að þeir geti ljeð því endanlegt atkvæði sitt til fullrar samþyktar.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) fer í rauninni miklu lengra en jeg í vopnaburði. Mjer skildist, að hann ekki hafa neitt á móti því, að atvinnulögreglan, sem hann kallaði, bæri vopn, og eins þeir, sem strandvarnir hafa nú.

Jeg held, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hafi beint til mín fyrirspurn um það, hvernig á því hefði staðið í uppþotinu 1921, að lögreglan kom ekki fram vilja sínum (þ. e. í fyrra skiftið), og hvort lögreglan hefði þá gert skyldu sína. Jeg var ekki í bænum þann dag, sem uppþotið var, og get því ekki um þetta sagt af eigin sjón eða raun, en örðugt að dæma um slíka hluti eftir sögusögn annara, og dómur almennings löngum óábyggilegur um þessháttar atburði, þar sem hiti er á báðar hliðar. Jeg sagði það áður og segi það enn, að ástæðan til þess, að ekki varð framkvæmd á í fyrra skiftið að taka drenginn, var að minni skoðun sú, að lögreglan var of fámenn. Hana vantaði það öryggi, sem því fylgir, að vita af styrkleika sínum. Líka verður að taka tillit til þess, að mikil æsing var í mönnum, eins og oft vill verða, þegar þannig lagaðir atburðir koma fyrir. Jeg játa það, að um það var talað þá hjer í bænum, að lögreglan hefði ekki verið nógu einbeitt. En jeg hefi komist á þá skoðun síðan, og held að það sje rjett álitið, að ekki hafi átt að ganga frekar fram af hálfu lögreglunnar en gert var í fyrra skiftið, vegna þess, hve fámenn hún var. Jeg álít enga ástæðu til þess að segja um lögreglustjóra, að hann hafi ekki gert skyldu sína þá, eins og ætíð endranær. Og það var alls ekki af því, að lögreglustjóra væri vantreyst, að annar maður var fenginn til þess að vera fyrir því liði, sem kvatt var til hjálpar lögreglunni, heldur vildu þeir, sem í þann flokk gengu, hafa sjerstakan foringja. Það er því alls ekki rjett, að lögreglustjóri hafi þá verið settur af, heldur var skipaður varalögreglustjóri honum til aðstoðar. Jeg get annars sagt hv. þm. (ÁÁ), að það mun vera næsta sjaldgæft, að lögreglustjóri, sem hefir jafnumfangsmiklum störfum að gegna, fari sjálfur út til þess að sefa svona uppþot. Og þó að lögreglustjóraembættinu yrði skift, yrði erfitt að fá lögreglustjóra, sem ekki hefði meiri eða minni skrifstofustörf. Þótt núverandi lögreglustjóraembætti væri skift, þyrfti lögreglustjórinn nýi eflaust að vera lögfræðingur. En til þess út af fyrir sig að stjórna varaliðinu þarf ekki lögfræðing. En það mætti máske skifta embættinu, og fá lögreglustjóra æðsta vald yfir varalögreglunni, ef það þætti hentara, og eins mætti ganga svo frá, að liðið væri valið af lögreglustjóra.

Eins og jeg hefi oft tekið fram, er jeg fús til samvinnu um allar breytingar á frv., sem horfa til samkomulags, stefna að því marki, er frv. gerir, og hægt er að framkvæma vegna kostnaðar. En um hitt þykir mjer kenna óþarfa hræðslu, ef menn vilja fella frv. þegar, án þess að lofa þinginu að athuga það rólega í nefnd.

Jeg álít ekki nægilegt að skifta lögregluliðinu í tollgæslu og löggæslu. Hjer þarf meiri breytinga við. Og hv. þm. (ÁÁ) athugar ekki, eða vill ekki athuga, að við stöndum í raun og veru á sama grundvelli. Jeg óska eftir því, að lögreglan sje styrkt. Hv. þm. vill það líka, þó að hann sje ekki með því, að það sje gert á þann hátt, sem jeg legg til í frv. Jeg veit, að hv. þm. talar hjer um vopn, bara af því að hann hefir gaman af að heyra sína eigin mælsku, því að í frv. er alls ekki gert ráð fyrir neinum vopnaburði.

Þá komst hv. þm. (ÁÁ) inn á að tala um kaupdeilur í sambandi við frv., og sagði, að í þeim málum yrði að nota lögregluvald með gætni. Jeg held, að það sje nú svo viðurkent um allan heim, að það ætti ekki að þurfa að minna á slíkt hjer í þingsalnum. Jeg veit ekki, hvað skaðsamlegra er en það, ef einstökum stjettum gæfist ástæða til þess að álíta opinberu valdi beint á móti sjer í slíkum málum. Mjer þótti því vænt um, er hv. þm. sagði, að lögreglan ætti ekki annað að gera en það, að varna því, að óeirðir yrðu út af kaupdeilum. Það á hún að gera. Og ef einhver aðili biður um lögregluvernd undir þeim kringumstæðum, þá á ekki að hlaupa til í neinu fljótræði. Hjer erum við hv. þm. (ÁÁ) samdóma, svo það er óþarfi að tala frekar um slíkt. Mín stefna með þessu frv. er sú sama og hann ljet í ljós, sem sje sú, að setja fasta embættislögreglu við hliðina á atvinnulögreglunni, sem aðeins sje notuð eftir tillögum lögreglustjóra, en ekki að stjórnin hafi neitt með hana að gera. En hvað snertir lög um milligöngu eða gerðardóm í sama augnamiði og í öðrum löndum, þá er jeg ekki eins vongóður og hv. þm. (ÁÁ), að auðið sje með slíku að setja niður allar deilur. Það hefir oft sýnt sig, að sáttasemjarar hafa ekki komið miklu til leiðar.

Hv. þm. sagðist ekki treysta mikið á lögreglu í þessu efni, heldur á innræti manna og þegnskap. En því þá að hafa nokkra lögreglu? Ætli það stafi ekki af því, að mönnum hafi reynst framferði borgaranna misbrestasamt og þörf á lögreglu að hún er talin nauðsynleg í öllum siðuðum löndum?

Hv. þm. (ÁÁ) talaði oft stillilega, en þó stundum af nokkurri æsingu. Jeg tek það fram, að sumir hv. þm. hafa talað af meiri æsingu móti þessu frv. en sjálfir jafnaðarmenn, sem þeir þó telja, að frv. sje einkum stefnt að. Hjer hefir jafnvel verið talað um það, að setja stjórnina af fyrir að flytja frv. þetta. Jeg hefi nú lesið það, sem skrifað hefir verið í Alþýðublaðið um málið, og fyrir utan skraf þess um vopnaburð o. s. frv., þá hefir það rætt málið af miklu meiri stillingu en hv. þm. Str. (TrÞ) og jafnvel hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ).

Hv. þm. (ÁÁ) sagði, að „demokratisk“ þjóð gæti ekki notað slíkt fyrirkomulag sem frv. gerir ráð fyrir. Jeg sje nú ekki, hvað slíkt kemur „demokrati“ við. Jeg held, að slíkar þjóðir hafi löngum notað lögreglulið og jafnvel herlið. Annars væri gott að fá skýringu á því, við hvað hv. þm. á með þessu sjerstaka „demokrati“.

Hv. þm. (ÁÁ) talaði um ofstjórn, sem alstaðar snerist í óstjórn. Við Íslendingar höfum að þessu ekki þolað mikil harmkvæli af völdum ofstjórnar, hvað sem verða kann, þegar tímar líða.

Hv. þm. Dala. (BJ) talaði um það, og eins hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að það væri kanske rjettast og best, að skifta lögreglustjóraembættinu og láta nýja lögreglustjórann fá meira lið. Jeg get vel fallist á, að þetta megi athuga í nefnd, ef frv. kemst svo langt.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) töluðu um, að það væri ekki tímabært að bera fram þetta frv. nú. Sjerstaklega lagði hv. 3. þm. Reykv. áherslu á þetta, en jeg hefi ekki fengið rök fyrir hversvegna. Það hefði þá átt að gerast af þessari stjórn 1922. Það er nú vitanlegt, að jeg var ekki einu sinni þingmaður þá, og auk þess var fyrirsjáanlegt, að jeg yrði þá á þinginu að láta af stjórn, svo að það er dálitið ósanngjarnt að bregða mjer um, að hafa ekki borið frv. fram þá. Ef frv. ætti að vera borið fram aðeins vegna atburðarins 1921, þá er ekki hægt að bera mjer á brýn, að það komi of seint, þar sem þetta er fyrsta þingið síðan 1922, sem jeg bý lagafrumvörp undir þing. En hvað það snertir, að þetta hefði átt að bera fram á öðrum tíma, þá hefði líklega verið rjettast að bera fram eitthvert slíkt frv. þegar eftir 1918, þegar sambandslögin voru gerð. En það var ekki gert þá, og þýðir ekki að fást um það hjeðan af.

Mjer datt ekki annað í hug, úr því að þeir hv. þm. úr Framsóknarflokknum, sem hjer hafa talað, hafa lagt svo mikla áherslu á að leggjast á móti frv., en að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mundi fylgja þeim, svo að jeg kippi mjer ekkert upp við það. En jeg hjelt, að hann færi ekki að ráðast svona tilefnislaust á stjórnina. Jeg hjelt, að hann fyndi það band á sjer, af sínu veglega embætti, að hann færi ekki að ástæðulausu að hefja harðar árásir á stjórnina.