05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í C-deild Alþingistíðinda. (2689)

32. mál, varalögregla

Jakob Möller:

Jeg þarf aðeins að gera örstutta athugasemd út af síðustu orðum hæstv. forsrh. til mín í gær, þótt þau væru ekki eins hastarleg og í fyrradag. Hann byrjaði á því að segja, að óþarfi væri fyrir mig að afsaka það, að jeg fylgdi Framsóknarflokknum í þessu máli. Það hefði vitanlega verið hreinn óþarfi, enda gerði jeg það ekki. Jeg segi ekki eða geri hjer á þingi, það sem jeg þarf að biðja afsökunar á, og jeg neita því, að jeg hafi talað ósæmilega í garð hæstv. stjórnar nje annara. Jeg var ekki alveg viss um það, hvað hæstv. forsrh. átti við, er hann var að tala um framkomu mína, en það hefir líklega helst átt að vera það, að staða mín væri svo virðuleg, að hún krefðist sæmilegrar framkomu af mjer. Jeg ber það óhræddur undir hv. þdm., hvort framkoma mín á þingi hafi verið sæmileg eða ósæmileg. Öðru þarf jeg svo ekki að svara hæstv. forsrh., en vildi víkja nokkrum orðum að málinu, sem hjer er til umr.

Jeg sagði í fyrstu ræðu minni, að ómögulegt væri að sjá annað en að það ætti að koma upp lögregluflokki gegn vissum stjettum. Hæstv. forsrh. mótmælti þessu, en í öðru orðinu hefir hann þó, með þeim dæmum, sem hann hefir tekið, til að sýna, að þörf væri á varalögreglu, játað þetta rjett, enda hljóta allir að sjá, hvað liggur á bak við. Í því efni vil jeg minna hæstv. forsrh. á ummæli hans í gær um atburðinn hjer á hafnarbakkanum í apríl í fyrra. Það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo, að varalögreglan eigi að skerast í leikinn í kaupdeilum. Og það er einmitt þessi andi frv., sem gefur mönnum hugmynd um það, til hvers refarnir sjeu skornir, en hann kemur einnig í veg fyrir það, að frv. verði samþ. á þessu þingi, því að það getur aldrei gert annað en ilt eitt, verði það að lögum.

Jeg sný mjer þá til vinar míns, hv. þm. Dala. (BJ). Í ræðu hans kom fram sú játning, að hann hefði átt að greiða atkv. á móti frv. umræðulaust, og þá auðvitað miklu frekar eftir umræður þær, sem fram hafa farið. Því að hann sagði, að ef varalögregluna ætti að setja til höfuðs einhverri ákveðinni stjett, þá væri engin önnur sæmileg meðferð á málinu. En einmitt í þessum löngu umræðum hefir hv. þm. fengið margendurteknar yfirlýsingar hæstv. forsrh. um, að aðalhlutverk varalögreglunnar ætti að vera, að skerast í leik í kaupgjaldsdeilum, gegn öðrum aðilanum.

Jeg tel ekki, að það þurfi að stofna lögreglulið þessa vegna, þó að jeg af öðrum ástæðum telji nauðsynlegt að efla lögregluna. En þetta gerir það að verkum, að frv. verður ekki samþ. nú. Það hefir þegar vakið nóga úlfúð.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) hafði það eftir mjer, að jeg hefði sagt, að frv. væri ekki svo undirbúið, að það mætti samþykkja. Þetta er ekki rjett; undirbúninginn hefði mátt bæta í nefnd. Það er flutningur málsins af hendi hæstv. forsætisráðherra, sem gerir það óalandi og óferjandi til nefndar. En af því að jeg játa, að þörf sje á aukinni lögreglu, þá hefi jeg hugsað mjer, í stað þess að greiða atkv. á móti frv., að bera fram svolátandi rökstudda dagskrá:

Með því að deildin lítur svo á, að það sje ekki nægilega rannsakað, á hvern hátt affarasælast muni að styrkja lögregluvaldið í landinu, eða hve mikinn kostnað slíkt fyrirkomulag sem frv. fer fram á muni hafa í för með sjer, en það einnig að öðru leyti næsta óákveðið í aðalatriðunum, þá telur deildin rjett að fela stjórninni málið til vandlegri íhugunar og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Í dagskrá þessari er vikið að því, að gera þurfi ákveðnari tillögur en gert hefir verið. Líka er vikið að því, að fyrri hluti frv. þurfi að vera svo ákveðinn, að kostnaðarhlið málsins verði ljós. Það er að vísu rjett hjá hæstv. fjrh., að hægt er að taka upp í fjárlög slíkar greiðslur, en það er eldgömul venja, að stjórnin leyfir sjer að greiða það fje, er henni sýnist, þótt ekki sje næg fjárveiting fyrir í fjárlögunum um það efni.

Líka hefi jeg vikið að því í dagskránni, að málið er ekki nógu vandlega undirbúið og yfirvegað, enda er það viðurkent af hæstv. forsrh. sjálfum. Frv. tekur aðeins til, að hjer í landi skuli stofna varalögreglu, en ekkert meira. Get jeg ekki sjeð, að neinum stuðningsmanni hæstv. stjórnar geti fundist sjer misboðið með því, þótt stjórnin athugi málið nánar og komi fram með rækilegar tillögur í því síðar.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta hina rökstuddu dagskrá.