24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

1. mál, fjárlög 1926

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal taka það fram strax, að jeg æskti ekki af hæstv. forseta að fá að gera stutta athugasemd til þess að svara hæstv. ráðherrum. Eftir að þeir höfðu allir staðið upp og svarað ræðu minni, gerði jeg ekki ráð fyrir að svara þeim aftur. Auðvitað ber margt á milli, en slíkt er alvanalegt á eldhúsdaginn, og hæstv. ráðherrum til hróss skal jeg taka það fram, að þeir hafa ekki nú a. m. k. misnotað þá aðstöðu sína að mega tala eftir vild, þar sem jeg hafði talað eins oft og jeg mátti. Jeg kvaddi mjer hljóðs til þess að bera af mjer sakir. Hv. þm. Dala. (BJ) beindi til mín ummælum, sem jeg verð að bera af mjer. En áður en jeg rökstyð það, sem jeg segi í því sambandi, vil jeg skjóta því til stuðningsmanna stjórnarinnar, að þeir hegða sjer eins og góðum stjórnarflokki ber. Þeir hafa látið málin hlutlaus, en lofað hæstv. stjórn að standa fyrir svörum. Sá einn, sem nú er kallaður heiðursfjelagi Íhaldsflokksins og lífakkeri stjórnarinnar, sá, sem bjargaði hæstv. stjórn í Krossanesmálinu, hann gekk fram fyrir skjöldu og reyndi að verja hæstv. stjórn.

Allir, sem lesið hafa kirkjusögu, vita, að þegar menn skifta um átrúnað, verða þeir ákaflega heitir, þegar þeir fara að verja sína nýju stefnu. Jeg hygg, að þar sje skýringin á því, að hv. þm. Dala. (BJ), heiðursfjelagi íhaldsins, fann hvöt hjá sjer til þess að ganga fram fyrir skjöldu og þvo hendur sínar.

Háttv. þm. bar þungar sakir á okkur, sem viljum fá Krossanesmálið rannsakað. Hann kallaði óheyrilegt, að við skyldum dirfast að óska þess, að nefnd væri skipuð, og taldi það ganga glæpi næst.

Jeg skal nú stuttlega gera grein fyrir því, hvernig hv. þm. veður reyk, þar sem hann reynir að breiða yfir framkomu sína með því að snúa sök á hendur okkur og láta sýnast, að við sjeum að fara fram á eitthvað óheyrilegt.

Við stöndum hjer á góðum grundvelli. Það hefir áður komið fram tillaga á Alþingi um að rannsaka gerðir stjórnarinnar og einstakra manna. Frægast er dæmi frá 1911. Þá var það, að einn af þeim mönnum, sem nú er dómari í hæstarjetti (L. H. B.), bar fram till. í Ed. um, að skipuð væri rannsóknarnefnd, og sú till. var samþykt í deildinni, ekki einungis af andstæðingum stjórnarinnar, heldur einnig af sumum stuðningsmönnum hennar. Auk dómarans, sem jeg nefndi, sat þar og framdi yfirheyrslur einn þm., sem enn á sæti hjer í hv. deild, hv. 1. þm. G.-K. (ÁF). Hv. þm. Dala. á ekki að vera þetta ókunnugt, því að hann, sem þá var viðskiftaráðunautur, var einn af þeim, sem yfirheyrður var, og veit því, hvernig slík nefnd starfar. En sá er munurinn á þeirri nefndarskipun og minni tillögu, að þá var þetta mál flutt með ákaflega miklum gusti, og fjellu mjög þung ummæli í garð þáverandi ráðherra. Jeg hefi hlustað á umræður á Alþingi síðan jeg var ungur, en jeg man ekki eftir að hafa heyrt þar harðari umræður en þá fóru fram á milli ráðherra og dómarans, sem jeg nefndi. Samt voru það stuðningsmenn stjórnarinnar, sem þá greiddu atkv. með því, að nefnd yrði skipuð. Þá voru margir þingmenn yfirheyrðir, m. a. var æskt eftir skýrslu frá núverandi atvinnumálaráðherra, og gaf hann þá skýrslu. Þá kom líka fram tillaga í neðri deild um að rannsaka Landsbankamálið, og voru það 3 af helstu stuðningsmönnum stjórnarinnar, sem þá tillögu báru fram. Jeg tel víst, að hv. þm. Dala. hafi greitt atkvæði með þeirri nefndarskipun. Að vísu verður það ekki sjeð með vissu, því að nafnakall var ekki viðhaft. En mótatkvæði voru aðeins fjögur, og þar sem fyrsti maður nefndarinnar varð hæstv. núverandi forseti þessarar deildar, má líklegt telja, að hv. þm. Dala. hafi kosið þennan flokksbróður sinn í nefndina. Í þessa nefnd var einnig kosinn hæstv. núverandi forseti sameinaðs þings (JóhJóh).

Jeg veit ekki, hvort hæstv. atvrh. (MG) hefir verið yfirheyrður þá, en hann var einn af þeim, sem gaf skýrslu. (Atvrh. MG: Nei, nei). Í plöggum nefndarinnar er skýrsla frá honum viðvíkjandi innheimtu og tryggingu á láni frá Landsbankanum. Á þessum grundvelli þykir mjer merkilegt, að hv. þm. Dala. (BJ) skuli leyfa sjer að halda því fram, að það sje nálega glæpur af okkur að fara fram á rannsókn. Það skýtur nokkuð skökku við hjá hv. þm. frá því, sem áður var, þar sem jeg tók fram, að einn mikilsmetinn maður, forseti Fiskifjelagsins. hefði fengið þann vitnisburð hjá verksmiðjueigandanum í Krossanesi, að hann væri opinber ósannindamaður. Það er norskur maður, sem stimplar þannig einn mikilsmetinn landa okkar. Þá tel jeg mitt hlutskifti betra, þar sem jeg vil rjetta æru þessa manns gegn ásökunum útlendingsins. Það verður ekki dregið í efa, að jeg stend á föstum grundvelli, þegar jeg vil, án allrar harðneskju, fara þessa leið, meðal annars til þess að rjetta hluta forseta Fiskifjelagsins.

Loks skal jeg segja eitt orð við hv. þm. Dala. út af því, sem hann vildi gera aðaðalatriði í dagskránni, og sem liv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir farið um maklega hörðum orðum. Jeg hefi rjett nýskeð talað við Akureyri og veit nú, að það er sama sem búið að höfða skaðabótamál gegn verksmiðjunni. Það var því alt út í hött, sem hv. þm. sagði, og kom ekkert málinu við.