05.05.1925
Neðri deild: 72. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

32. mál, varalögregla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg stend ekki upp til annars en að segja það, að jeg sje ekki ástæðu til þess að fara að ræða þetta mál alment aftur hjer í þessari hv. deild. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir ekki sagt neitt annað í í þetta skifti en það, sem hann sagði við 1. umr. og eins á almennum fundi hjer í bænum, sem við þá töluðumst dálítið við um málið á. Og vitanlega er ekki neitt nýtt atriði komið hjer fram. Hv. þm. (JBald) hefir aðeins lagt dálítið meiri áherslu á, að það væri algerlega óverjandi af stjórninni að koma með svo viðtæka heimild til að stofna þennan mikla her, það væri svo algerlega óviðeigandi, en þó væri það svo miklu verra, að hafa mennina svo fáa, það tæki þó út yfir alt. Þetta er talandi dæmi um röksemdafærslu hv. þm. (JBald) í þessu máli, fyrir utan það, sem hv. þm. (JBald) hefir verið að reyna að vera dálítið fyndinn, eins og þegar hann var að tala um það, að hafa þessa lögreglu til viðhafnar. Annars leiðir þessi ræða hv. þm. (JBald) mann til að álíta það, að hann tali hjer dálítið utangarna, að hann meini þetta ekki sjálfur. Hv. þm. (JBald) er sjálfsagt ekki eins hræddur við þetta frv. eins og hann lætur í veðri vaka, heldur munu það vera þeir menn, sem hann telur sína stuðningsmenn, því að hv. þm. er sjálfur mjög rólegur, þegar hann skoðar þetta mál frá sínu sjónarmiði; öll ræða hv. þm. bendir á þetta; það komu aðeins innan um orð, sem ekki komu frá honum sjálfum. Samt verð jeg að viðurenna það, að hv. þm. (JBald) kom þó meira inn á málið heldur en hv. frsm. meirihl. (BSt).

Það hefir verið margrætt við fyrri umr. þessa máls, sem hjer var aftur farið að tala um, að þessir búningar eigi að vera svo óskaplega dýrir, og jeg tók einmitt við 1. umr. kostnaðinn svo ríflega til, að jeg þóttist alveg viss um, að það væri ómögulegt að segja, að jeg væri að fela nokkuð. Jeg get sagt hv. þm. það, að það er hægt að fá einkennisbúning fyrir neðan 100 kr. Jeg man því miður ekki, hvað einkennisbúningar handa mönnum á „Þór“ kostuðu, en jeg man, að það var fremur lítið. Það má fá sterk föt fyrir mjög lítið, ef haganlega er að farið, en búningarnir þó í alla staði sæmilegir.

Að öðru leyti man jeg ekki til, að jeg þyrfti að mótmæla neinu, sem sagt hefir verið. — Jú, það var eitt, sem hv. þm. (JBald) sagði, að jeg hefði verið píndur til þess að nefna dæmi úr sögunni, eins og Ólafsmálið. Hver skyldi hafa gert það? Máske hv. þm. (JBald), sem altaf hefir talað fremur linlega í þessu máli?