10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í C-deild Alþingistíðinda. (2719)

11. mál, úrskurður í útsvarsmálum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skildist á ræðu hv. 2. þm. S.-M. (IP), að það væri ekki þetta frv., sem hann væri óánægður með, heldur það, að sveitarstjórnarlögin skyldu ekki hafa verið tekin til endurskoðunar í heild. En til þess sá stjórnin ekki ástæðu að þessu sinni, þar sem henni hafa ekki borist aðfinslur í þá átt, nema þá helst viðvíkjandi reikningsárinu. En þær umkvartanir eru reyndar ekki nýjar. Og er álits sýslunefnda var leitað um það, hvort þær kysu breytingu á því sviði, urðu svörin svo mjög á tvo vegu, að ekki þótti fært að breyta þessu atriði í samræmi við þau. Sumar voru ánægðar með ástandið eins og það er, aðrar ekki. Um niðurjöfnunartímann er það að segja, að hann kann að vísu að vera óheppilegur, en þar sem engin kvörtun hefir þó komið fram um það, hefir stjórnin ekki borið fram neina tillögu til breytinga. — Um fyrirsögn frv. get jeg alls ekki verið hv. 2. þm. S.-M. (IP) sammála. Það er ekki hægt að kalla þetta breytingu á sveitarstjórnarlögunum, þar sem frv. breytir jafnframt löggjöf kaupstaða, sem er alveg sjerstök. — Jeg sje að vísu ekkert við það að athuga, þótt fleiri breytingum verði bætt við sveitarstjórnarlögin. En þau voru þó á sínum tíma svo vel undirbúin og samin, að mjer þykir líklegt, að þótt þau yrðu tekin til fullkominnar endurskoðunar, að breytingarnar yrðu ekki eins miklar og sumir ætla.