10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

11. mál, úrskurður í útsvarsmálum

Ingvar Pálmason:

Mjer fanst jeg fullkomlega skilja það á hæstv. atvrh. (MG), að ekki væri að vænta þess, að stjórnin kæmi fram að þessu sinni með neinar tillögur til breytinga á sveitarstjórnarlögunum. Önnur ástæðan, sem hann færði fram til afsökunar, var sú, að þegar álits sýslunefnda hefði verið leitað um eitt atriði í þeim, reikningsárið, hefðu svörin verið svo misjöfn, að ekki hefði þótt fært að taka þau til greina. Hin ástæðan var sú, að sveitarstjórnarlögin hefðu verið svo vel úr garði gerð á sínum tíma, að ekki væri enn nein ástæða til breytinga.

Síðan að þessi lög voru sett, eru nú tuttugu ár liðin. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hversu miklar breytingar hafa orðið í atvinnulífi voru á þessum tíma, svo að engin furða er, þótt lög þessi sjeu úrelt orðin, enda eru nægar sannanir fyrir því, einkum þó í kauptúnum. Í sveitum hafa allar breytingar farið hægara, og þar kunna því lög þessi að eiga fremur við, en þó alls ekki fullkomlega. Það er því engin ástæða, þótt lögin hafi verið góð á sínum tíma, fyrir tuttugu árum.

Þá vil jeg víkja aftur örfáum orðum að fyrri ástæðunni. Hefir álits sýslunefnda verið leitað um þetta frv., sem hjer liggur fyrir? Jeg veit það ekki, en fróðlegt væri að fá vitneskju um það. Hvað fyrirsögn frv. snertir, sný jeg ekki aftur með það, að þetta er breyting á sveitarstjórnarlögunum, enda þótt það kunni að breyta löggjöf kaupstaða líka. Jeg hygg, að það geti og mjög orkað tvímælis, hve heppilegt sje að blanda almennum lögum og löggjöf kaupstaða saman við sveitarstjórnarlögin. En þó er það ekki aðalatriðið fyrir mjer í þessu efni, heldur hitt, að þessi breyting, er frv. fer fram á, sje látin sitja fyrir öðrum mikilsverðari og nauðsynlegri breytingum. Í fyrra lágu fyrir þinginu mikilvægar tillögur til breytinga, svo að það er ekki alveg út í loftið, að krefjast þeirra nú. Jeg geri því ráð fyrir, að jeg muni síðar á þessu þingi flytja frv. um breytingu á sveitarstjórnarlögunum, þar sem jeg sje, að stjórnin muni láta það undir höfuð leggjast. Hitt mundi jeg vera henni þakklátur fyrir, ef hún skipaði í málið milliþinganefnd, sem tæki það til rækilegrar yfirvegunar. — En sú ástæða stjórnarinnar, að lögin hljóti að vera góð enn í dag, af því að þau voru það fyrir tuttugu árum, er svo lítils virði, að ekki tjáir um að tala.