10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

11. mál, úrskurður í útsvarsmálum

Jóhann Jósefsson:

Jeg er þakklátur stjórninni fyrir það, að þetta frv. er fram komið, til þess að tryggja mönnum rjettlátan úrskurð í útsvarsmálum, en það eina sem jeg finn að því, er það, að það gengur ekki nógu langt í því efni. Útsvör manna nema nú orðið svo háum upphæðum, að hætt er við að þau verði jafnan ærið ágreiningsefni. Vjer vitum, að í framkvæmdinni er aldrei hægt að jafna alveg rjett niður, en það verður að gera eins rjett og hægt er. Spor í þessa átt eru ákvæði frv. En það er að mínu áliti ekki nógu langt gengið, því að hjer er aðeins átt við þá, sem lögheimili eiga utan þess hrepps- eða bæjarfjelags, sem þeir eru útsvarsskyldir í, í stað þess, að ákvæðið um málskot þetta ætti að ná til allra, utan hrepps og innan. — Jeg hefi heyrt eftir skilríkum mönnum, að það hafi komið fyrir, að bæjarstjórnir hafi samið við stóra atvinnurekendur á þann hátt, að útsvar þeirra skyldi ekki fara fram úr ákveðinni upphæð. Sje þetta satt, hlýtur sá mismunur, er fram kemur við þetta, að lenda á öðrum. Jeg vildi því mælast til, að nefnd sú, er fær þetta mál til meðferðar, láti. yfirskotsákvæðið gilda um öll þau útsvör, er kærð eru, og samkomulag fæst ekki um í hjeraði, hvort sem utan- eða innanhreppsmenn eiga í hlut.