12.02.1925
Efri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Jónas Jónsson:

Þó að frv. þetta verði að líkindum rætt allítarlega síðar, þykir mjer þó hlýða að bæta nokkru við það, er jeg sagði áðan.

Hæstv. forsrh. (JM) finst það ekki stórt, sem um er deilt, en honum eða flokki hans skilst það ekki, að með nokkurra króna sparnaði er verið að spilla kenslunni við þessa ríkisskóla, sem frv. nefnir. Ef til vill er þetta frv. komið frá sparnaðarnefndinni. (Forsrh. JM: Nei, alls ekki.) Jæja, annars hefði maður getað freistast til að trúa því um hæstv. forsrh., að hann hefði ekki kynt sjer nægilega alla málavexti.

Frv. er alls ekki óverulegt mál. Nái það fram að ganga í því formi, sem það er nú, getur afleiðingin orðið sú, að ríkisstjórnin fái alla tungumálakennara skólanna til að gera gagnsókn. Það er áreiðanlega meiri vandi en hæstv. forsrh. vill vera láta, að gera upp á milli hinna ýmsu kennara skólanna. Og hæpið sjálfsagt að meta t. d. leiðrjettingu 50 stíla á dag móti 2–3 stundum á viku. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að tungumálakennarar eru útþrælkaðir af stílaleiðrjettingum og verða að leggja á sig langtum meira starf en flestir aðrir kennarar, nema það sje tilgangur frv., að þeir kasti einhvernvegin höndum til starfsins; þá er vitanlega alt öðru máli að gegna.

Jeg er ekki frá því, að hæstv. forsrh. (JM) hafi heyrt ræðu mína áðan á líkan hátt og sagt er að viss persóna lesi biblíuna. Honum er víst kunnug stefna sú, er jeg fylgi í launamálinu, enda veit jeg ekki betur en við sjeum þar á öndverðum meið. Jeg viðurkenni að vísu, að laun embættismanna sjeu of lág, miðað við afkomu þeirra. En jeg vil fækka embættismönnum þjóðarinnar til muna, láta rannsaka sem best alt í sambandi við starfsmannahald ríkisins, og hækka þá laun þeirra embættismanna, sem rannsókn þessi leiðir í ljós, að við getum ekki án verið.

Annars skilst mjer, að hæstv. forsrh. (JM) standi æðihöllum fæti, að fara n ú að ræða um launamálið, á meðan sparnaðarnefndin, sem þessi hv. deild ákvað, að skipuð yrði, hefir lítið sem ekkert rannsakað starfsmannahald þjóðarinnar. Það var þó tekið skýrt fram í þál., að nefndin skyldi rannsaka launamálið og starfsmannahaldið, og einmitt á þeim grundvelli, er jeg hafði haldið fram, bæði fyr og síðar. En bæði er nú það, að hæstv. forsrh. hraðaði því ekki svo mjög að skipa nefndina, enda að líkindum ekki rekið mjög á eftir að launamálið yrði afgreitt á þessu þingi, á þeim grundvelli, er jeg og samherjar mínir hafa haldið fram.