11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg stend upp aðeins til að mótmæla því, sem hv. frsm. seinni kaflans (TrÞ) sagði, að jeg hefði fallið frá því, sem jeg sagði um ósamkomulag um upphæð á styrkveitingu til Búnaðarfjelagsins. Jeg hefi ekki fallið frá því, sem jeg sagði, sem var það, að gætnir menn í þeim hóp álitu, að ef á annað borð þyrfti að takmarka útgjöld ríkissjóðs, þá væri þó hægt að halda starfrækslu Búnaðarfjelagsins í fullviðunandi horfi fyrir 175 þús. kr.

Út af kjötútflutningnum skal jeg einungis taka það fram, að jeg er hv. frsm. (TrÞ) öldungis sammála um það, að það þarf að reisa íshús á útflutningsstöðunum, og það hvort sem kjötið er flutt út fryst eða kælt, þó að útbúnaður íshússins mætti vera eitthvað öðruvísi, ef eingöngu væri hugsað um kælt kjöt.