27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í C-deild Alþingistíðinda. (2741)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Frsm. (Jónas Jónsson):

Mentmn. hefir orðið ásátt um, að þrátt fyrir það, þó að ýmislegt mælti með því, að lengdur yrði vinnutími sumra fastra kennara við ríkisskólana, þá mundi það varla gerandi, eins og sakir standa nú. Ætla jeg því að leiða rök að þessu fyrir nefndarinnar hönd. Er það þá fyrst þetta, sem bæði jeg og aðrir hafa bent á, að launakjör flestra kennaranna eru svo slæm, að til þess að geta sjeð sjer og sínum farborða, verða þeir að snapa sjer aukakenslu hingað og þangað. Þetta veit stjórnin. Þessvegna getur hún ekki ætlast til, að fjölgað sje kenslustundum kennaranna, nema að laun þeirra hækki jafnhliða, svo að þeir geta á þeim lifað.

Nefndin hefir spurst fyrir um þetta, og í nál. okkar er gerð allítarleg grein fyrir því, hvernig kennarar líta á þetta mál. Við höfum skrifað stofnunum allflestum og átt tal við bæði skólastjórana suma og ýmsa kennara, og er álit þeirra á eina lund, að vegna ónógra launa þurfi þeir að lifa á snöpum.

Við 1. umr. þessa máls benti jeg hæstv. forsrh. á, að hann mundi ekki skýra rjett frá kenslustundafjöldanum við kennaraskólann. Hjelt hann því fram, að stundafjöldi á viku væri 21, en jeg taldi mig betur vita og sagði hann vera að minsta kosti 27 stundir. Þessu hafa nú kennararnir svarað. Segja þeir í brjefi sínu, að þeir kenni 27 stundir á viku, en skólastjóri oftast um 24 stundir. Þetta er að vísu lítið atriði, en mjer fanst jeg verða að leiðrjetta ágreining þann, sem varð á milli mín og hæstv. forsrh. við 1. umr., enda sýnir þetta, að hæstv. kenslumálaráðherra er ekki eins vel að sjer og skyldi um vinnu þá, er fastir kennarar ríkisskólanna inna af höndum fyrir laun sín. Þeir geta þess líka, kennarar kennaraskólans, að laun sin sjeu mun lægri en starfsbræðra sinna í Noregi. Þó sje lægri stundafjöldi þar og dýrtíð miklu minni. Er því auðsætt, að hæpin eru rök hæstv. forsrh., er hann segir, að stundafjöldi sá, er innleiða á með frv., sje miðaður við það, sem alment tíðkast á Norðurlöndum.

Um vjelstjóraskólann ætla jeg ekki að fjölyrða, en læt mjer nægja að vísa til þess, er um hann stendur í nál.

Frá mentaskólanum hafa nefndinni borist einna ákveðnust mótmæli gegn frv. Segir rektor, að það sje 70 ára gömul venja, stundafjöldi sá, er nú tíðkast við skólann. Þó hafi stundum verið út af því breytt í einstaka tilfellum og án þess að greiða aukaþóknun, en laun flestra kennaranna sjeu svo lág, að þeir verði að stunda aukakenslu. Þess er og líka gætandi, að við þennan skóla er svo mikið um heimaleiðrjettingar, t. d. tungumálakennaranna, að í „praxis“ verður kenslustundafjöldi þeirra miklu hærri en talið er.

Um rektor sjálfan er það að segja, að nefndinni finst mjög ósanngjarnt, að maður í slíkri trúnaðarstöðu kenni meira en 3 stundir á dag, eða ráði því að minsta kosti sjálfur. Engum dettur í hug að skipa með lögum, hvað marga tíma t. d. ráðherrarnir skuli vinna á dag, en hjer er um álíka mikið trúnaðarstarf að ræða, að stjórna aðalmentastofnun þjóðarinnar.

Sem sagt, aðalrök nefndarinnar gegn frv. þessu eru launakjör kennaranna. Væru launin hækkuð svo, að fjölskyldumenn með þungt heimili geti af þeim lifað, getur nefndin fallist á að fjölga kenslustundunum eitthvað. En á meðan ekkert liggur fyrir um að bæta launin, á frv. þetta engan rjett á sjer.

Þá vildi jeg minnast á eitt atriði, sem slæðst hefir inn í frv., og hæstv. forsrh. ekki veitt eftirtekt. Það er um söngkennarann og leikfimiskennarann við mentaskólann, en þeim er gert að skyldu, samkv. frv., að kenna einni stundu meira á degi hverjum en öðrum kennurum. Þetta hlýtur að hafa komist vegna athugunarleysis eða vangár inn í frv., því að óhugsandi er, að þessir kennarar kenni lengri tíma en aðrir fastir kennarar.

Hvað leikfimiskennarann snertir, þá hefi jeg hjer í höndum brjef frá honum til mentamálanefndarinnar, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkrar glefsur úr því. Þar segir svo, meðal annars:

„Þegar jeg var ráðinn fastur kennari við mentaskólann og kennaraskólann, haustið 1919, átti jeg tal við forsætisráðherra Jón Magnússon. Sagði hann hiklaust, að mjer bæri ekki að kenna fleiri stundir á viku en öðrum föstum kennurum mentaskólans, og ef jeg kendi fleiri stundir vikulega en 24, bæri mjer aukagjald fyrir þær, eins og öðrum föstum kennurum. Fyrsta árið kendi jeg ekki nema 24 stundir á viku við skólana, en síðar meira, svo að í vetur kenni jeg 31 stund á vikunni.“

Síðan útskýrir kennarinn þetta frekar og segir, að það hafi verið meira vegna hlýleika við skólann, að hann kendi meira en áskilið var.

Til þess nú að vita, hvað þingið hefði um þetta sagt, þá sló jeg upp í skjalaparti Alþt. fyrir árið 1919. Mjer var kunnugt um, að hjer var ekki um samþ. lög að ræða, heldur um atriði, sem farið var með eins og hverja aðra lagaheimild. Þar stendur svo í nál. fjárveitinganefndar 1919, um 14. gr. B. II, C. 1.

„Nefndin ætlast til, að fimleikakennari mentaskólans hafi framvegis sömu laun sem aðrir kennarar í þeim skóla (upphæð þó ótiltekin), en hafi, auk starfs síns þar leikfimiskenslu í kennaraskólanum og kenslu í líkamsfræði, enda kenni hann 24 stundir á viku sem aðrir fastir kennarar.“

Og undir þetta skrifar öll nefndin eða þessir menn:

Pjetur Jónsson, Magnús Pjetursson, Bjarni Jónsson frá Vogi, Jörundur Brynjólfsson, Þorleifur Jónsson, Sigurður Stefánsson og Matthías Ólafsson.

Það er því full sönnun fyrir því, að þessi kennari fer rjett með alt það, sem að uppruna þessa máls lýtur, enda er það fullkomlega rökstutt með því, sem segir í áliti nefndarinnar. Jeg held því, að hæstv. forsrh. verði að fallast á, hvað þennan kennara snertir, að erfitt verði að skylda hann til að kenna meira en ætlast var til í öndverðu, að minsta kosti á meðan launakjör hans eru ekki bætt. En jeg geri ráð fyrir, að hjer sje aðeins um vangá að ræða, og get því látið útrætt um það. Sama er og um söngkennarann að segja. Hann sagði mjer í síma núna fyrir nokkrum dögum, að hann væri ráðinn með sömu launum og sama stundafjölda á dag og aðrir fastir kennarar skólans.

Í nál. segir, samkv. skýrslu rektors, að hvað tungumálakennara skólans snertir, þá sje búið að koma þeirri venju á, að með stílaleiðrjettingum heima kenni einn 36 stundir á viku, annar 37 stundir. Og jeg vil beina til hæstv. forsrh. orðum rektors, að taka heldur upp einhverja uppbót tungumálakennurunum til handa, heldur en að rýra tekjur þeirra með því að taka frá þeim aukavinnuna.

Nú skal jeg játa, að það sje ekki alveg rjett, að fara eftir því, sem kennararnir sjálfir segja um þetta efni; þeir sjeu ekki færir um að dæma í sinni sök. En eins og áður hefir verið tekið fram, þá er það á vitorði allra þeirra manna, sem nokkuð þekkja til skólanna, að allir fastir kennarar eru svo illa launaðir, að þeir geta ekki bjargast af laununum einum. Frv. eins og þetta, sem fer fram á að auka kennurunum erfiði, án þess að bæta laun þeirra, er því andvana fætt og brýtur í bág við siðferðislegan grundvallarrjett kennaranna. Kennararnir kenna nú þegar langtum meira með heimavinnu og stílaleiðrjettingum, en hægt er þó af þeim að heimta með nokkurri sanngirni.

Það má vera, að einhver skjóti því til okkar nefndarmanna, að við hefðum átt að gera brtt. um launakjör fastra kennara, úr því vitanlegt sje, að þeir eigi við bág kjör að búa. Því er til að svara, að það lá fyrir utan verkahring nefndarinnar, en hitt gat nefndin ekki: lækkað þessi sultarlaun kennaranna, með því að taka af þeim alla möguleika til þess að bæta laun sín með aukakenslu.

Jeg skal engu um það spá, hvað hv. deild gerir við frv. þetta. Nefndin leggur til, að það verði felt, og það væri best, að það yrði sem fyrst, svo að það tefði ekki fyrir öðrum málum, sem nauðsynlegri eru.