27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í C-deild Alþingistíðinda. (2742)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get sagt það þegar, að nú orðið, eða vegna þess, að felt var frv. um barnakennarana, þá legg jeg minni áherslu á, að þetta frv. nái fram að ganga. Hitt frv. hafði talsverðan sparnað í för með sjer, eins og það var borið fram, og þá gat þetta verið dálítil viðbót, en eins og nú er komið, játa jeg, að hjer er ekki um mikið að ræða.

Annars er nú auðsætt orðið, að þýðingarlaust er fyrir nokkra stjórn að bera fram frv., sem miða eiga til sparnaðar á ríkisrekstrinum. Það rísa altaf nógu margir upp til þess að andmæla því. Svona var það um fyrv. stjórn. Það er bara hrópað til stjórnarinnar, að hún eigi að spara, en svo þegar hún bendir Alþingi á, hvað það sje, sem spara megi, þá er það talið ómögulegt, og öllum sparnaðarmálum eytt. Núverandi stjórn skipaði í sparnaðarnefndina menn, sem alment var viðurkent, að til starfans væru mjög vel fallnir. En hvernig fer um tillögur þessara mætu manna? Þeim er eytt, og mönnunum sjálfum lítil kurteisi sýnd.

Þó að frv. þetta eigi nú ef til vill ekki langa lífdaga fram undan, vildi jeg þó minnast á ýmislegt, sem segir í nál. á þskj. 227.

Það er alls ekki af gleymsku eða vangá neinni frá minni hendi, að söngkennaranum og leikfimiskennaranum við mentaskólann er ætlað að kenna 33 stundir á viku. Þessi stundafjöldi er settur samkvæmt því, sem tíðkast víða annarsstaðar. Það er sem sje kunnugt, að þessir kennarar hafa svo lítinn undirbúning heima, eða vinnu þar, vegna kenslunnar, að þetta þykir fært.

Því hefir verið haldið fram, að það væri kennurum ofætlun að kenna 36 stundir við barnaskóla og 27–30 stundir í öðrum skólum. En á móti þessu mælir það, að ef kennarar geta fengið kenslu aukreitis fyrir sjerstaka borgun, bæta þeir við sig alt að 12 stundum á viku fram yfir skyldukensluna. Að hinu leytinu hefir verið sagt, að heimta ætti fult starf af embættismönnum fyrir full laun. Jeg man ekki betur en að Tíminn tæki einmitt undir þessa kröfu. En nú er annað hljóð í strokknum hjá hv. 5. landsk.

Hv. frsm. (JJ) sagði hreinskilnislega, að ekki mætti byggja á umsögn þeirra, er hjer eiga hlut að máli, fremur en t. d. umsögn hæstarjettardómara í fyrra um fækkun dómenda þar. Það er ekki við því að búast, að kennararnir æski eftir þessari aukningu á starfstíma þeirra. Það er þó dálítið brosleg röksemd, að eigi megi auka við stundafjöldann, vegna þess, að það sje orðin 70 ára venja, að hann sje 24 stundir á viku. Sú venja hefir vist verið orðin mörg hundruð ára gömul annarsstaðar á Norðurlöndum, þegar af henni var brugðið fyrir þrem árum.

Þá hjelt hv. frsm. (JJ) því fram, að ótækt væri, að forstöðumenn skóla fengju ekki að skamta sjer sinn stundafjölda sjálfir. Jeg mun ekki þrátta um það atriði, en í öðrum löndum hefir þótt rjett að setja fyrirmæli um það. — í frv., sem danska stjórnin hefir nýlega lagt fyrir ríkisþingið, er gert ráð fyrir 30 stunda kenslu á viku í kennaraskólum, eins og í þessu frv.

Hvað söngkennarann við mentaskólann snertir, þá er það alveg rjett, að talað hefir verið um, að hann kendi 24 st. á viku. Um leikfimiskennarann er það að segja, að honum hafa verið ákveðin sömu laun, en ekki verið samið um stundafjölda. Annars var sá maður ráðinn af fjárveitinganefnd. Þegar kom fram spurning um launahækkun eftir embættisaldri, þá hefir mitt álit verið það, að þessir menn ættu einnig kröfu til slíkrar hækkunar.

Þar sem því er haldið fram í nál., að kenslustundir annara fastra kennara en forstöðumanns kennaraskólans sjeu 27 á viku, þá þótti mjer það næsta undarlegt. Mjer er kunnugt um, að eini fasti kennari skólans kennir 34 st. á viku, og fær aukaborgun fyrir 10 af þeim. Annar kennari kennir 30 st., og sá þriðji 27. Það er rjett, að hægt er að fá út með þessu móti, að hver kenni 27 st. að meðaltali, þegar þeim 10 stundum er slept, sem aukaborgun er greidd fyrir. En tveir kennararnir eru alls eigi fastir kennarar, svo að þetta er einmitt rjett í frv.

Þá hefir því verið haldið fram, að það væri ekki rjett, er stendur í aths. við frv., að kennarar við mentaskólann þyrftu meiri undirbúning heldur en kennarar við aðra skóla. Við samskonar skóla erlendis er adjunktspróf heimtað. Svo er að vísu eigi hjer, en menn með slíku prófi hafa þó jafnan verið látnir ganga fyrir. Hinsvegar hafa ýmsir próflausir kennarar kent við kennaraskólann. Skólastjóri þar er prestur úr sveit, sem áður hafði kent við annan skóla. Aðrir tveir kennarar þar eru guðfræðikandidatar. Einn kennari er þar, sem að vísu hefir aflað sjer allmikillar kennaramentunar, en myndi þó tæplega talinn fullgildur við mentaskólann. Reyndar hafa eigi ætíð verið til menn með adjunktsprófi til að gegna kenslu þar. En einmitt af því að meira undirbúnings er krafist af kennurum mentaskólans en annara skóla, er eigi farið fram á hærri stundafjölda en þetta.

Það er því ekkert ranglæti, að krefjast 30 stunda kenslu við kennaraskólann, þegar sannað er, að einn kennari kennir þar 30 st. og annar 27 stundir. Við stýrimannaskólann mun hver kennari hafa kent 30 stundir á viku hingað til, án þess að um hafi verið kvartað.