27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

2744Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekki tefja tímann, enda hafa þessar umræður verið helst til lærðar, til að bændur tækju þátt í þeim, enda háttv. ræðumenn skilið illa eða ekki hvor annan. Jeg vildi aðeins taka það fram, að mjer finst ekki rjett af hæstv. forshr. að láta sig litlu skifta um afdrif þessa frv., enda þótt annað gott frv., er gekk í líka átt, hafi verið felt í háttv. Nd. Mjer fyrir mitt leyti finst stefna þessa frv. rjett, og get alls eigi sjeð, að neinum sje ofþyngt með þeirri fjölgun kenslustunda, er það fer fram á. Ef til vill mætti fá hitt frv. samþykt á næsta þingi, og þá væri eigi nema til bóta, að fá þetta frv. samþykt nú. Jeg kann því eigi vel við undanhald hæstv. forsrh. í þessu máli, og reyndar fleirum, er hann hefir lagt fyrir þingið.

Hjer stendur að líkindum til að stofna nýtt dósentsembætti við háskólann, er talið var ónauðsynlegt á síðasta þingi. Jeg held því, að einmitt væri vel til fallið að vinna upp þann kostnað, er af því embætti leiðir, með því að samþykkja þetta frv. A. m. k. er hálfur skaði betri en allur, og því betra að annað frv. komist í gegn, heldur en að bæði fari sömu leiðina.