27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vona, að hv. deild skilji ekki orð mín svo, að jeg óski, að frv. þetta falli. En þar sem bæði frv. voru borin fram um sama efni, þá hefi jeg búist við, að hið sama yrði látið yfir bæði ganga. Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) get jeg verið þakklátur fyrir stuðning hans við frv., og eins er jeg honum samdóma í því, að vel megi samþykkja þetta frv., þó hitt hafi verið felt, en hinsvegar er mjer ekki eins sárt um það, þegar svona fór með hitt, sem meira munaði um. En það vil jeg segja, að ekki teldi jeg skynsamlegt að hafa á móti þessu, af því að launin sjeu of lág, því það liggur í augum uppi, að kennurum myndi veitast auðveldara að fá laun sin bætt, er þeir intu þá vinnu af hendi, sem sanngjarnt væri að krefjast af þeim. Jeg vil í þessu sambandi minna á það, að á síðasta þingi var þess krafist, að lengdur skyldi vinnutími, úr 5 stundum í 6, á skrifstofum stjórnarráðsins. Þessar óskir þingsins tók ráðuneytið til greina. En ef nú þetta frv. verður felt hjer eins og hitt í hv. Nd., eða kemst ekki fram á þinginu, þá sjer ráðuneytið sjer ekki annað fært, samræmis vegna, en að færa vinnutímann í stjórnarráðinu aftur í sama horf. það er víst ekki meiningin, að láta þessar ströngu kröfur aðeins bitna á þeim mönnum, sem þar vinna. Og ekki hafa þeirra launakjör verið bætt.