27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 1. landsk. (SE) hafa farið mörgum orðum um það, hve kennarar eigi við bág kjör að búa, svo að jeg tel sjálfsagt, að það sje vilji þeirra, að laun þessara manna verði hækkuð, og er ekki nema sanngjarnt að ætlast til þess, að aðrir embættismenn sæti sömu kjörum. Hv. 1. landsk. talaði auk þess mikið um það, hve hann hefði sjeð kennara þreytta, og væri því ekki heppilegt að heimta meiri kenslu af þeim en nú er. Sömuleiðis hjelt hann því fram, að kennarar yrðu yfirleitt harla skammlífir. Það má vel vera, að kennarar sjeu oft þreyttir — það er í hverri stöðu sem er, mikill munur á því, hvað menn þola að vinna — en jeg geri ráð fyrir, að hagfræðin sýni, að meðalaldur kennara sje yfirleitt talsvert hár og að þeir verði iðulega mjög gamlir menn. Vjer höfum sjeð þess dæmi, að kennarar hjer halda áfram kenslustarfi sínu alt fram á áttræðisaldur, þrátt fyrir þetta afskaplega þreytandi starf. Jeg veit ekki úr hvaða hagskýrslum hv. 1. landsk. (SE) hefir hitt. (SE: Jeg las það í útlendu blaði fyrir nokkru síðan, og þá hlýtur það að vera satt!) Það getur verið. En ef hv. þm. (SE) er að taka það, að jeg hefi verið hjer með blað, sem skýrði frá kennarafundi, þá vil jeg ekki vera að orðlengja um það, hve viðeigandi þessi athugasemd er. Annars var jeg ekkert að deila á hv. þm. (SE), og er leiðinlegt að vita hann rjúka upp með slettur, þó að talað sje algengt um málið.