27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skil ekki í því, að það sje ekki af öðru, einhverju sjerstöku máli óviðkomandi þessu, sem hv. þm. (SE) fer að hreyta hálfgerðum ónotum til stjórnarinnar. Hv. þm. (SE) veit það ósköp vel, að það heyrir ekki undir dóms- og kenslumálaráðherra að koma með brtt. á launalögum. (SE: Forsrh. ræður stefnu stjórnarinnar í aðalmálum.) Það er alt annað, og það veit hv. þm. (SE) vel, að þetta er ekki sjerstaklega pólitískt mál, svo að það er ástæðulaust að vera að slá þessu föstu, sem ekki gefur nokkurt tilefni til að skoða þetta sem yfirlýsingu. En hvað hitt atriðið snertir, um kennarana, ef þeir hafa svo bág launakjör, þá er gott að vita, að menn vilji bæta úr því.

En jeg held, að það sje búið að tala nóg um þetta mál, og að það sje búið undir það, að koma til atkvgr.