02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Guðmundur Ólafsson:

Jeg var búinn að hugsa um að sleppa því fram hjá mjer í þetta skifti, að taka til máls, þangað til hæstv. kenslumálaráðh. vjek að framkomu minni, er jeg hafði síðast talað í þessu máli, og verð jeg því að segja nokkur orð.

Þetta er einfalt mál, sem í rauninni þýðir ekkert að vera að deila um. Það mun ætíð fá nóga formælendur, í hvert sinn sem við því verður hreyft. Háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh) vill halda þessu máli í sama horfinu og áður, og sagði hann, að menn væru orðnir því fyrirkomulagi vanir, sem nú væri, og er menn sæktu um embættin, gerðu menn ráð fyrir, að engar breytingar væru í þessu atriði, frá gamalli venju. En jeg held þó, að háttv. þm. hljóti að vita, að til þessa hefir ekkert verið lögfest um kenslustundafjölda við ríkisskólana. (JóhJóh: En laun kennaranna eru miðuð við þann stundafjölda, sem þeir hafa nú.) En það er hægt að breyta þessu, og nú á líka að gera það, með þessu frv. Um launin hefir það verið þannig, að hver flokkur manna eða stjett hefir reynt að ýta upp sínum launum, en aftur hefir reikningurinn verið fremur óljós, að því er snerti það, fyrir hve mikla vinnu launin skyldu greiðast. Það er annars nærri hlægilegt, hversu mikill vindur hefir verið gerður móti jafnóverulegri og lítilli vinnuaukningu og það er, sem frv. þetta fer fram á, og mundi vart verða meira uppnám, þó að kviknað hefði einhversstaðar í þinghúsinu. En þannig er þetta ætíð, ef eitthvað á að spara, hversu óverulegt sem það er, má þó aldrei hreyfa við neinu. Það er og auðsætt, að sumir háttv. þm. hafa ekki verið minna á móti þessu máli fyrir það, að bæði einstakir kennarar og aðrir úr þeirri stjett hafa mjög verið á vakki hjer, er þetta mál hefir verið til meðferðar.

Þá vil jeg sjerstaklega vekja athygli á þeim orðum hæstv. kenslumálaráðh. (JM), að yrði þetta frv. felt á þessu þingi, mundi vinnutíminn verða styttur aftur í stjórnarráðinu. Það má með öðrum orðum ekki minna kosta en að þingið hlaupi hröðum skrefum aftur á bak frá þeirri stefnu, sem það tók í þessu máli í fyrra, og á þá að koma á þeirri venju, að ef þingið samþykkir eitthvað gott og þarflegt í ár, þá að taka að aftur næsta ár.

Í þetta sinn mun jeg ekki deila við hæstv. kenslumálaráðh., vegna þess, að nú talaði hann þó fyrir þessu frv. sínu, og hann hjelt því einnig fram, að kennarar væru eigi ver launaðir en aðrar embættismannastjettir á landinu, og þykist jeg vita, að þetta sje alveg rjett, og jeg gæti meira að segja vel trúað því, að ef þetta frv. á að lifa það, að koma hingað aftur frá háttv. Nd., þá verði farið fram á það, að launa kennarana líka sjerstaklega fyrir það, hversu langt frí þeir hafa árlega frá embættisstörfum sínum. Það er alls eigi hægt að leggja lítið upp úr frítíma kennaranna, þegar þeir eru bornir saman við þá starfsmenn, sem verða að starfa stöðugt í embætti sínu alt árið. Háttv. 5. landsk. (JJ) sagði, að það mætti ekki laka það svo, að þó hann vildi láta bæta laun kennara, að hann mundi verða með því, að hækka laun annara embættismanna. En jeg hygg, að nógir mundu þá verða aðrir til að krefjast hækkunar á launum annara opinberra starfsmanna, svo jeg legg ekki mikið upp úr þessu loforði háttv. 5. landsk. (JJ). Ekki fæ jeg heldur sjeð, að nokkur áslæða sje til að greiða atkv. með bilt. háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh), því að hún hefir ekki við neitt að styðjast. Þó þetta hafi verið óákveðið undanfarið, hvað er því til fyrirstöðu, að það verði fastákveðið upp frá þessu, eins og frv. leggur til? Jeg held það gæti vel farið svo, ef þessu hjeldi áfram, eins og hingað til, að launin verði jafnan ákveðin, þótt vinnutíminn væri það ekki, og svo mundu menn fremur nota sjer það sem átyllu til að krefjast launahækkunar, ef einhversstaðar yrði bætt við nokkrum vinnutímum í viðbót. Jeg held því, að það verði best að fastákveða kenslustundafjöldann í eitt skifti fyrir öll, og það er einmitt það, sem frv. þetta gerir.