02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er nú búið að segja svo margt og mikið um þetta mál, hjer í hv. deild, og finna að því, að við höfum bygt nál. á því, að ekki mætti ofþjaka kennurunum. Jeg þekki þetta starf af reynslu, og tillögur mínar eru því ekki gerðar út í bláinn. Og ef reynslan á ekki að skapa mönnum skoðanir í þessu efni, þá veit jeg ekki, hvað á að gera það.

Sumir halda, að kensla sje ekkert annað en yfirheyrsla. Þetta er, sem betur fer, ekki lengur svo. Og síðan kensla komst á þann rekspöl, sem hún nú er komin inn á, er svo margfalt meira heimtað af kennurum en áður var gert Þá er talað um góða aðstöðu kennara, af því vinnutíminn sje svo stuttur. Það er eftir atvikum, hvort það er til bóta Margir þeirra geta ekki fengið hagkvæma atvinnu á sumrum. Og því getur það farið svo, að kjör sumra þeirra verði lítt viðunanleg. Ef hægt væri að fresta sumum störfum kenslunnar til sumarsins, þá væri öðru máli að gegna. En það er óframkvæmanlegt.

Það er alveg nauðsynlegt, ef kenslan á að verða annað en leiðinleg yfirheyrsla, að koma óþreyttur að starfi, annars kemur deyfðin og kyrstaðan í staðinn fyrir líf og áhuga.

Frv. gerir ráð fyrir, að leikfimi- og söngkennarar hafi fleiri stundir en aðrir kennarar. Jeg hefi kent leikfimi í mörg ár og veit það, að þessi kensla lýir meira en nokkur önnur kensla. Kennarinn verður að búa sig vandlega undir hverja stund og vera algerlega óþreyttur, ekkert síður en við aðra kenslu, ef nemendurnir eiga að hafa leikfiminnar full not. Jeg er því mótfallinn því, að fjölga kenslustundum leikfimiskennara.

Að því er snertir söngkensluna, hefir verið bent á það, að söngkennarinn við mentaskólann kenni fleiri stundir en honum ber samkv. lögum. En af hverju gerir hann það? Af fjárhagslegum ástæðum. Og jeg er sannfærður um, að það er ekki kenslunni til bóta. Af því brtt. byggir á sömu ástæðum og nál., gæti jeg fylgt henni.