02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Einar Árnason:

Hæstv. forsrh. mintst á, að vinnutími kennaranna við kennnaraskólann hefði verið lengdur, og ekki hefði verið í móti mælt. Jeg hefi aldrei sagt, að lagalega gætu kennarar neitað, þótt stundum væri fjölgað. En jeg hefi litið svo á, að það væri ósanngjarnt, af því þeir skoðuðu núverandi fyrirkomulag sem samning við sig. — Hv. 1. landsk. (SE) kvaðst ekki geta greitt dagskrá minni atkv. Mjer þótti mótbára hans undarleg. Það var helst svo að heyra, að ef dagskráin væri samþykt, þá hefði stjórnin leyfi til þess að fjölga stundunum. Hún hefir það hvort sem er, eins og hæstv. forsrh. tók fram.

Það voru hv. 1. og hv. 6. landsk., sem töluðu um þreytu kennaranna. Jeg geri ráð fyrir, að kennarar geti þreyst eins og aðrir menn, en jeg vil benda á, að til eru menn, sem altaf eru þreyttir, og aðrir, sem aldrei eru þreyttir. Það fer ekki eingöngu eftir því, hve mikið starf þeir leggja á sig. Jeg hefi þekt tvo kennara við sama skóla. Á öðrum þeirra sá aldrei þreytu. Hinn var síþreyttur, og kendu þeir þó jafnmargar stundir. Þreyta manna fer ekki altaf eftir því, hve mikið þeir leggja á sig, og því síður eftir hinu, hve mikið kaup þeim er goldið. Mestu veldur, hve miklu lífsfjöri þeir eru gæddir og yfirleitt, hve vel þeir eru af guði gerðir. Samkvæmt skoðunum þessara hv. nefndarmanna lægi beinast við að snúa frv. alveg við og banna, að lengur væri kent en nú er. Þetta, að hækka kaupið, bætir ekkert úr þreytunni. Það getur vel verið, að mín dagskrá verði feld. Jeg fæst ekkert um það. En skoðanirnar hjer hafa verið svo skiftar, að jeg held, hvernig sem um frv. fer á endanum, að hæstv. stjórn geti ekki dregið neinar ályktanir af því, sem hjer hefir farið fram. Málinu hefir ekkert þokað áleiðis.