12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (2781)

35. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. minnihl. (Árni Jónsson):

Það er í sjálfu sjer mjög leiðinlegt, hversu lengi hefir dregist að koma máli þessu að. Það er að mörgu leyti merkilegt, og teldi jeg æskilegt, að það gæti gengið fram. Málið hefir verið athugað í nefnd, og nú hefir minnihl. skilað áliti sínu fyrir alllöngu síðan, en hv. meirihl. hefir á hinn bóginn ekki látið neitt til sín heyra, og er nú, eins og menn vita, liðið fram að þinglokum.

Eins og kunnugt er, eru löggiltir endurskoðendur alstaðar komnir á, nema hjer. En eftir því sem atvinnulíf þjóðarinnar blómgast og verður fjölbreyttara, og eftir því sem meira fje verður í veltunni, eftir því meiri verður nauðsynin á því, að bókfærsla og rekstur fyrirtækisins sje í góðu lagi. Fyrir því hefir skapast í hinum ýmsu löndum sjerstök stjett manna, sem hefir það starf með höndum, að endurskoða reikninga og líta eftir því, að rekstur fyrirtækjanna sje í sem bestu horfi. En eins og skiljanlegt er, getur margt verið í ólagi, þó að allar tölur komi heim, og því verður það aðalatriðið, að til þessa eftirlits veljist samviskusamir menn, með víðtæka verslunarþekkingu, svo þeir geti komið auga á það, sem aflaga kann að fara, og gefið holl ráð og leiðbeiningar við reksturinn. En mjer er nær að halda, að óvíða muni meiri þörf á mönnum sem þessum en einmitt hjer. Verslunarstjettin íslenska er ennþá tiltölulega ung og atvinnuvegirnir svo áhættusamir, að eigi veitir af, að alt eftirlit sje sem best. Og í rauninni væri rjett, að skylda öll atvinnufyrirtæki, sem rekin eru með lánsfje, til þess, að hafa bókhaldið jafnan í svo góðu lagi, að lánsstofnanirnar ættu jafnan greiðan aðgang til að kynna sjer hag þeirra.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um frv. þetta, sem raunar er gamalkunnugt hjer. Var það fyrst á ferð á þinginu 1914, en komst þá ekki til Ed. Svo var það aftur borið fram fyrir 2 árum, en var þá drepið við 2. umr. Held jeg ekki, að sökin hafi verið sú, að menn væru andvígir málinu í sjálfu sjer, heldur hitt, að þeim hafi fundist frv. vera beint, eins og þá stóð á, að sjerstöku fyrirtæki, sem mönnum var sárt um. En nú er engin slík ástæða fyrir hendi, og tel jeg þá víst, að hv. þm. muni ljúft að greiða fyrir frv. — Þörfin á löggiltum endurskoðendum er vafalaus, og ekki mun það síst vera í hinum tíðu gjaldþrotamálum, sem mörg hafa verið hreinustu hneykslismál. Er það ekkert fágæti, að gjaldþrota mönnum er borið það á brýn, að þeir hafi skotið undan af eignum sínum. Oftast er þetta eflaust satt. En hitt kemur þó eflaust fyrir, að menn eru hafðir fyrir rangri sök í þessu efni, af því að þeir hafa engin tök á að sanna sakleysi sitt.

Þá ætla jeg ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en vona, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi.