13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (2786)

35. mál, löggiltir endurskoðendur

Ágúst Flygenring:

Hv. 1. þm. Árn. (MT) vjek enn einu sinni að þeirri Gróusögu, að ýmsir stærri atvinnurekendur, og þá líklega einkum togaraútgerðarfjelög hjer í Reykjavík, hafi notað eina faglærða endurskoðandann, sem nú er völ á hjer, til þess að hjálpa þeim til að svíkjast undan rjettmætum skatti. Annað liggur ekki í orðum hv. þm. hjer í dag, og ennfremur var ymprað á þessu sama í umræðum um breytingar á tekjuskattslögunum hjer um daginn. Í því skitkasti, sem ýmsir hv. þdm. áttu þá, hirti jeg ekki um að taka til máls. En úr því nú gafst tækifæri til að minnast á þessar sögusagnir, þá vil jeg lýsa þær tilhæfulausan uppspuna. Þessi fjelög eru einmitt svo heiðvirð, að láta fagmann, sem hefir lengi unnið við löggilta endurskoðunarstofnun í Danmörku, yfirfara reikninga sína. Þetta gera fjelögin af tveim ástæðum. Fyrst og fremst veitir slík endurskoðun hluthöfunum fullkomið öryggi, og í annan stað á hún að vera trygging fyrir því, að þau sjeu ekki höfð fyrir röngu ámæli um að þau greiði ekki þann skatt, sem þeim ber, þó að sumir hv. þm. láti sjer sæma slíkar aðdróttanir.

Það er heldur ekki til neins að mæla því í gegn, að endurskoðendur þurfa að vera þaulvanir fagmenn, ef endurskoðunin á að vera örugg. Og sýslumenn geta ekki, hversu ágætir sem þeir annars kunna að vera, mælt sig við fagmenn á þessu sviði. En auðvitað kemur ekki til mála, að aðrir verði löggiltir endurskoðendur en þeir, sem færa sönnur á fullkomna kunnáttu sína í þessum efnum.