13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í C-deild Alþingistíðinda. (2787)

35. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. minnihl. (Árni Jónsson):

Eins og menn muna, var þetta mál til 2. umr. í gær. Hefði þá mátt búast við því, að hv. 1. þm. Árn. hefði eitthvað um það að segja. En hann hafði það ekki og labbaði steinþegjandi burt áður en til atkvgr. kom. Nú vildi hann bæta þetta upp, reis upp og gusaði mikið, en óð mjög grunt. Hann sagði, að þetta mál hefði lengi legið fyrir allshn., en loks hefði minnihl. skilað nál. sínu. Þetta „loks“ merkir það, að minnihl. skilaði nál. sínu 16. apríl. Nú er næstum mánuður síðan, og virðist málið ekki svo stórviða, að hv. meirihl. hefði átt að geta áttað sig á því fyr og komið fram með sitt nál. fyr en rjett í lokin. Hv. þm. (MT) sagði, að hann hefði ekki viljað koma með málið í deildina af hlífð við hv. flm. (BJ). Nú þykir mjer, og sjálfsagt fleirum, nokkuð langt sótt, því um það blandast engum hugur, að hv. flm. (BJ) stendur þessum hv. þm. (MT) langtum framar í öllu tilliti. Fer því skörin að færast upp í bekkinn, þegar slík ummæli heyrast úr þessari átt. Ætti hv. þm. (MT) fyrst að hugsa um það, að komast þangað með tærnar, sem hv. þm. Dala. hefir hælana, áður en hann fer að tala um að hlífa honum.

Hv. þm. Dala. hefir svarað þeim orðum hv. þm. (MT), að þetta frv. væri óframbærilegt. Hefi jeg engu við svör hans að bæta og hirði ekki um að lengja tímann með því að endurtaka þau. En það var eitt atriði, sem hv. þm. Dala. (BJ) fór ekki út í, og jeg hefi gaman af að sýna, hve gáfulegt var. Hv. þm. (MT) sagði, að þetta frv. færi í þá átt, að breyta rjettarfarinu í landinu. Mjer er nú alveg óskiljanlegt, hvernig það á að breyta rjettarfarinu í landinu, og þá síst til þess lakara, ef betri reglu er komið á bókhald og starfrækslu þeirra fyrirtækja, sem rekin eru í landinu.

Hv. þm. (MT) sagði, að engin önnur skilyrði væru sett fyrir því, hverjir gætu orðið endurskoðendur, en þau, að þeir væru skapaðir í kross og ekki þjófar. Auðvitað er hvorugt nefnt í frv., heldur hitt, sem vænta mætti, að hv. þm. (MT) væri læs á, að endurskoðendurnir skuli sanna það fyrir nefnd, að þeir hafi nægilega þekkingu samkvæmt því, er ákveðið verður í reglugerð, er stjórnin setur. Virðist lítil hætta á, að stjórnin geti ekki sett nægilega og nauðsynlega reglugerð um þetta, þar sem þetta skipulag er fyrir löngu komið á í nágrannalöndunum. Má ætla, að þessi reglugerð verði sett í samræmi við þær reglur, sem þar gilda, og lært af þeirri reynslu, sem þar hefir fengist. Þá þótti hv. þm. (MT) mjög einkennileg þau fyrirmæli í 5. gr., að ef dómendur vilji hafa sjerstaka endurskoðendur, þá skuli þeir leita til hinna löggiltu endurskoðenda. Hv. þm. Barð. (HK) stakk svo rækilega upp í hv. þm. (MT) í þessu efni, að óþarft virðist að troða þar meiru. Sætir það mestu furðu, að hann sem dómari skuli fjargviðrast út af þessu. Því hjer gilda sömu reglur og alstaðar annarsstaðar, að sjálfsagt þykir í hverju efni að leita til þeirra, sem þar kunna best skil á. Ef einhver fer í mál, leitar hann til yfirvaldsins, ekki eingöngu af skyldu, heldur og af því, að hann trúir honum best til að leysa vandræði sín.

Hv. þm. (MT) sagði, að endurskoðendur hjer ynnu helst að því, að koma gróðafjelögunum hjá lögmætum skatti. Mjer er ekki kunnugt um, að það sje nema eitt firma hjer í bæ, sem starfað hefir og starfar að endurskoðun. Skora jeg hjer með á hv. þm. að segja skýrt til um, hvort hann vill halda því fram, að það hafi hjálpað mönnum í þessu skyni, og ef svo er, hvaða gróðafjelögum það þá hafi hjálpað til að komast hjá því að greiða skatt. Það er svo langt frá því, að þetta sje í lög sett til þess að hjálpa mönnum til að komast hjá skatti, að það er þvert á móti sett til öryggis, til að komið sje alveg í veg fyrir slíkt. Þetta er sett til þess, að braskarar og „svindlarar“ og aðrir fjárglæframenn geti ekki, er þeir gefa sig upp, skotið stórfje undan, og braskað síðan eins og ekkert hefði í skorist, en slíkt hefir því miður alt of oft átt sjer stað.

Ef það er rjett, sem hv. þm. (MT) sagði, að verslunarstjettinni hafi hrakað í siðgæði eftir stríðið, og jeg skal ekki rengja, að svo kunni að vera, þá er því meiri nauðsyn að setja þennan hemil.

Hv. þm. (MT) sagði, að stjettin væri ung. Já, hún er meira að segja, eins og hv. þm. Dala. tók fram, ófædd enn. Hingað til hafa ekki verið neinir löggiltir endurskoðendur í landinu, heldur aðeins „prívat“ endurskoðendur, sem ekki hafa borið neina ábyrgð gagnvart því opinbera. Finst mjer það merkilegt af embættismanni, að hafa svo litla trú sem hv. þm. (MT) hefir á „administration“, eða þeim mönnum, sem bæði bera ábyrgð gegn einstaklingum og því opinbera. Satt er að vísu, sem sagt var, að nokkur skríll finst í öllum stjettum. Dæmi eru þess, að prestar hafa mist kjól og kall fyrir ólifnað. En ættum við ekki að hafa neina presta fyrir það? Jeg þekki dæmi þess, að sáttanefndarmaður var rekinn fyrir það, að hann spilti sættum. Ættum við ekki að hafa neina sáttanefndarmenn þessvegna? Jeg veit til þess, að hreppsstjóri sveik tíund, og var settur af. Eigum við því að hafa enga hreppstjóra? Og jeg veit til þess, að sjóðþurð varð hjá sýslumanni og hann varð að láta af embætti. Vill hv. þm. (MT) af þeim sökum leggja til, að allir sýslumenn verði lagðir niður? Það væri ekki nema hliðstætt við það, að hann vill enga löggilta endurskoðendur hafa, af því að til kunni að vera misendismenn í þeirri stjett.

Satt að segja var ómögulegt að finna nokkurn botn í ræðu hv. þm. (MT). Hann hefði átt að taka sama kostinn og í gær, að fara út áður en hann varð sjer til stórskammar, og mun sú skömm hans aðeins verða enn meiri, ef hann stendur upp aftur.