24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

1. mál, fjárlög 1926

Bernharð Stefánsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að leggja neitt til þessara mála. En af því að háttv. þm. eru nú farnir að halda eldhúsdag yfir kjósendum mínum, ætla jeg að gera örstutta athugasemd. Jeg mótmæli því, að hreppsnefndin í Glæsibæjarhreppi hafi gert samning við Krossanesverksmiðjuna um, hvað hún skuli borga í útsvar. Þetta, að verksmiðjan kærir og það verður samkomulag að færa útsvarið niður, og hreppsnefndin leggur svo útsvar á verksmiðjuna síðastl. haust í samræmi við það, sem var í fyrra, — það getur ekki kallast samningur. Hreppsnefndin mun alls ekki bundin við þetta framvegis. Einn háttv. þm. tók fram, að úr því hreppsnefndin í Glæsibæjarhreppi hefði gert samning við forstöðumann verksmiðjunnar um útsvarið, þá væri ekkert líklegra en að hann hefði komist að samkomulagi við skattanefndina líka. Því hefir verið haldið fram, að tekjur verksmiðjunnar muni hafa verið miklu hærri en gefið er upp á skattaskrá hreppsins. En jeg er sannfærður um, að ef svo er, þá er það fyrir þá ástæðu eina, að skattanefndin hefir ekki getað aflað sjer nægilegra gagna til þess að vita með vissu um tekjur verksmiðjunnar. Jeg þori að fullyrða, að nefndin hefir ekki vísvitandi viljað svíkja landssjóð um rjettmætar tekjur, og jeg álít mjög óviðeigandi að slá svona ummælum fram um fjarstadda menn. Það er skiljanlegt, að bændum í sveit, sem ekkert þekkja til verksmiðjurekstrar, geti skjátlast í þessu efni, þó þeir vilji gera alt sem rjettast. En að um samninga hafi verið að ræða, kemur ekki til neinna mála. Verð jeg algerlega að mótmæla slíkum getsökum.

Úr því jeg er staðinn upp, ætla jeg að leiðrjetta aðra missögn. Hæstv. fjrh. (JÞ) mintist á, að undarlegt væri, að menn úr Hornafirði og víðar af landinu væru að óska eftir rannsókn í þessu máli, en þeir, sem næst byggju verksmiðjunni og kunnugastir væru, nefndu þetta ekki á nafn. Jeg skal upplýsa það, sem háttv. þm. gæti þó verið kunnugt, þar sem sjá má það svart á hvítu hjer í lestrarsalnum, að á þingmálafundi í kjördæmi mínu var samþykt að skora á Alþingi að rannsaka Krossanesmálið ítarlega. Urðu fyrst skiftar skoðanir um það, hvernig orða skyldi tillöguna, og vildu sumir kveða allhart að orði, en niðurstaðan varð sú, að fundurinn skoraði mjög eindregið á þingið, að það ljeti rannsaka málið til hlítar. Greiddi jafnvel einn eindreginn stuðningsmaður stjórnarinnar þessari tillögu fúslega atkvæði sitt. —

Það var tekið fram í umr. af mjer, að rannsókn hlyti að verða, samkvæmt 35. gr. stjórnarskrárinnar, enda hefði það aldrei getað orðið nema til góðs, frá hvaða sjónarmiði, sem á það er litið, að málið upplýstist sem best.

Út í eldhúsverkin ætla jeg ekki að fara. Það er orðið framorðið, og jeg vil ekki tefja tímann með því.