14.02.1925
Neðri deild: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í C-deild Alþingistíðinda. (2801)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Flm. (Ágúst Flygenring):

Þetta litla frv. er fram komið beinlínis vegna laga þeirra um bæjargjöld í Reykjavík, sem samþ. voru hjer á síðasta þingi.

Fram á síðustu ár hefir það verið sem óskráður samningur milli kaupstaðanna, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, að í Hafnarfirði skyldu ekki lögð útsvör á Reykvíkinga, sem leituðu sjer þar atvinnu, þó að um lengri tíma væri en 3 mánuði, og gagnkvæmt. En er mannfjöldinn óx í báðum kaupstöðunum, varð þessi venja að falla niður, og að lokum er svo komið, að með lögum frá síðasta þingi um bæjargjöld í Reykjavík, eru allir þeir menn gerðir útsvarsskyldir þar, sem atvinnu stunda á skipum Reykvíkinga.

Jeg skal leiða hjá mjer að tala um það, hversu rjettlátt eða sanngjarnt þetta nýja fyrirkomulag á útsvarsskyldunni kann að vera í sjálfu sjer. Um það geta verið skiftar skoðanir, og má sjálfsagt færa mörg rök bæði með og móti. En hitt mun öllum geta komið saman um, að þessi bæjarfjelög eigi í raun og veru ekki síður rjett á að njóta nokkurs framlags til opinberra bæjarútgjalda frá þeim, sem hafa atvinnu á skipum þeim, sem heima eiga í bæjunum, en frá hinum, sem vinna þar í landi. Enda er það að sjálfsögðu svo, að þeir bæjarmenn sjálfir, sem eru á þessum skipum, bera þar aukaútsvör, þó að þeir komi aðeins örsjaldan í land.

Tæplega getur heldur orðið spurning um atvinnutímann, sem í frv. þessu er settur sem skilyrði fyrir gjaldkröfunni. Hann virðist hljóta að verða sá sami í báðum þessum nágrannakaupstöðum, og jafnlangur þeim tíma, sem áður hefir verið ákveðinn fyrir fólk, sem í landi vinnur, sem sje 3 mánuðir í báðum tilfellum. Annars má yfirleitt segja það um þessi lagaákvæði, hversu rjettlát eða órjettlát sem þau kunna að sýnast, þá hljóti löggjöfin þó að láta eitt og hið sama yfir bæði þessi nágrannabæjarfjelög ganga í þessum efnum. það er óhjákvæmilegt, því að annars verður ekki komist hjá misrjetti, sem enginn sanngjarn maður vill við una.

umr. þessari lokinni óska jeg, að frv. verði vísað til hv. allshn.