27.02.1925
Neðri deild: 21. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í C-deild Alþingistíðinda. (2807)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal strax taka það fram, að jeg er í mörgum atriðum sammála hv. 1. þm. Árn. (MT). Jeg álít þessi útsvarsálagningamál komin á villigötur með því að bæjarstjórnum hefir verið veitt of viðtæk heimild til að leggja útsvör á menn. Sjerstaklega má í þessu sambandi nefna lögin, sem samþykt voru hjer í fyrra fyrir Reykjavíkurkaupstað. En þó að mjer meira en dytti það í hug, þá sá jeg ekki fært að bera fram nýtt frv. um þessi efni nú á þessu þingi. Enda taldi jeg ekki líklegt, að sama þingið, sem markaði stefnu í þessum málum s. l. ár, með því að samþykkja áðurnefnd lög, fengist til að ganga inn á mótsetta stefnu í ár, þó að frv. í þá átt kæmi fram. En jeg hefi lagt annað frv. fyrir þetta þing, frv., sem hv. Ed. hefir enn til meðferðar. Er þar gert ráð fyrir, að skifta útsvari milli heimilis- og atvinnusveitar manna, eftir ákveðnum reglum, og verð jeg að segja, að með því væri ráðin töluverð bót á því misrjetti, sem nú ríkir.

Annars fæ jeg ekki sjeð nein vandkvæði á því, að taka ákvæðin um útsvarsskyldu manna út úr sveitarstjórnarlögum landsins og setja ný lög um það efni, þar sem sveitir og kaupstaðir lytu sömu ákvæðum. Og ef jeg sje, að meirihl. hv. deildar vildi sinna þessu máli, þá hefi jeg ekkert á móti því, að undirbúa slíka lagasetningu. Þó hefi jeg ekki tíma til þess nú í þingönnunum, og verður það því að bíða næsta þings.

En að því er þetta frv. snertir, þá verð jeg að viðurkenna það með hv. meirihl. allshn., að það er erfitt að neita Hafnarfirði um hið sama og Reykjavík hefir þegar fengið. Sýndist mjer því sanngjörn lausn á máli þessu nú, að frv. verði samþykt, en jafnframt gengið út frá því, að þegar á næsta þingi verði málum þessum skipað í fast og viðunandi form, þar sem ekki gilti sín reglan á hverjum stað.

Viðvíkjandi ummælum hv. 1. þm. Árn. (MT) um það, hverja merkingu orðin „fast aðsetur“ hafi, skal jeg geta þess, að jeg býst við, að ákvæðin um útsvarsálögurjett Reykjavíkur á sjómenn, sem lögskráðir eru á skip, sem hjer eru skrásett, hafi komist inn undir því yfirskini, að maður, sem er lögskráður á skip, verði talinn hafa fast aðsetur þar, sem skipið er skrásett. Skipið er þar heimilisfast, en maðurinn hefir fast aðsetur á skipinu. Þetta skilst mjer vera grundvöllurinn undir ákvæðum frv. um útsvarsskyldu sjómanna, sem ekki eru búsettir innanhjeraðs, en njóta atvinnu á skipum, sem ganga þaðan.

Ef til vill mætti skifta útsvarinu milli heimilis- og atvinnusveitar eftir öðrum hlutföllum en jeg hefi stungið upp á í frv., sem jeg nefndi áðan, t. d. láta atvinnusveitina fá hlutfallslega minna en þar er gert ráð fyrir. Því er ekki hægt að neita, að þess minna sem kemur í hlut atvinnusveitarinnar, þess meira er dregið úr ranglæti því, sem heimilissveitir þeirra manna, sem greiða annarsstaðar útsvar, verða nú fyrir.

Jón Auðunn Jónsson: Jeg er að miklu leyti samþykkur hv. 1. þm. Árn. (MT). Hann er orðinn allsendis óhæfur, þessi útsvarseltingaleikur á eftir útgerðarmönnum og sjómönnum, svo að segja um alt land.

Það er engu líkara en verið sje að hegna útgerðarmönnum fyrir það eitt, að þeim hefir tekist að afla betri skipastóls, sem gerir þeim kleift að stunda atvinnurekstur sinn annarsstaðar frá en að heiman. Og það er eins og hegna beri sjómönnum fyrir dugnað sinn, að geta stjórnað stærri og betri skipum en áður og aflað meira. Menn sjá best, hversu ósanngjarnt þetta er, með því að taka til dæmis útsvör báta, sem ganga hjer sunnanlands á vetrarvertíðinni, en fyrir norðan á sumrum og eiga svo heimili á þriðja staðnum, t. d. Vestfjörðum. Það nær ekki nokkurri átt, að lögð sjeu á útsvör á öllum þessum stöðum, bæði á báta og menn. Staðirnir, sem bátar þessir veiða frá, njóta vissulega góðs af veru þeirra þar. Fyrst og fremst skapar hún aukna atvinnu á staðnum, og auk þess hafa slíkir bátar altaf talsverð verslunarviðskifti við land. Þessa getur heimilssveit skips og manna ekki notið, meðan þeir eru í öðrum landsfjórðungum. Auk þess fara þessir bátar einmitt oft burtu heiman að, sökum aflaleysis heima fyrir. Sjá nú allir, hversu ósanngjarnt það er, að þegar heimilissveitin hefir mist atvinnu alla, sem útgerðin veitir vinnandi fólki í landi, alla verslun við útgerðina og viðskifti, að þá skuli hún þar á ofan vera svift svo og svo miklu af tekjum þeirra innansveitarmanna, sem hafa leitað sjer atvinnu út fyrir hjeraðið. Með þessu móti geta menn svo orðið útsvarsskyldir á 3–4 stöðum, og er þá venjulega ekki dregið úr álagningunni. Að vísu gæti það bætt mikið úr skák, ef útsvarinu væri skift eftir ákveðnum reglum milli heimilis-og atvinnusveitar. En jeg lít þó svo á, að menn eigi einungis að greiða útsvar þar, sem þeir eiga lögheimili, jafnvel þó að þeir, vegna nauðsynja útgerðarinnar, leiti sjer atvinnu á öðrum stöðum. Jeg vona því, að hæstv. atvrh. (MG) leggi fyrir næsta þing frv. í þessa sanngjörnu átt.

En hvað sem þessu líður, þá er ekki nema eðlilegt, að Hafnarfjörður vilji fá þann rjett, sem frv. fer fram á. Þegar eitt bæjarfjelag fær svo að segja ótakmarkað að skara eld að sinni köku, er ofureðlilegt, að hin komi á eftir og heimti sama rjett. Er ómögulegt að segja, hver græðir að lokum á þessari látlausu togstreitu, en hitt er víst, að óbeinlínis tapa öll hjeruðin við þetta.