28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Sigurjón Jónsson:

Jeg hefi ekki mörgu við að bæta þær umr., sem hjer hafa orðið, en viðvíkjandi þeirri tillögu, sem nú kom síðast fram, frá hv. þm. Barð. (HK), þá er jeg henni algerlega mótfallinn. Jeg álít, að þetta frv. eigi fullan rjett á sjer og eigi því að verða samþ., af því að samskonar breytingar voru gerðar að lögum á síðasta þingi fyrir Reykjavík. Að öðru leyti vildi jeg taka það fram, að jeg er flestu því samþykkur, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) hjelt fram um afstöðu sína til frv., og jeg mundi geta greitt atkv. með tillögu hans, ef eigi stæði svo á, að jeg álít, að aðrir kaupstaðir eigi heimtingu á að fá sömu rjettindi til útsvarsálagningar og Reykjavík. Jeg get því ekki greitt till. hans atkv. af þeim ástæðum. Meðan fordæmi þetta, sem gefið var með Reykjavíkurlögunum, helst, verður að halda áfram að veita öðrum kaupstöðum sömu rjettindi. Hitt er alt annað, að rjettara væri að samræma alla þessa löggjöf í þessu atriði. En meðan stjórnin ekki kemur með tillögur um breytingar í þá átt, mælir öll sanngirni með því, að þetta verði veitt.

Það var alveg rjett, sem hv. 1. þm. Arn. (MT) sagði um þetta, að það er sjaldnast rjett að leggja útsvar á þessa menn. Útsvörunum er venjulegast varið til fátækramála, kenslumála og annara slíkra bæja- og sveitarmálefna, en þeir, sem aðeins dvelja ca. 3 mánuði við einhverja atvinnu og greiða af því útsvar, þeir njóta eigi þeirra hagsmuna, sem útsvörin ganga til; það eru aðeins þeir, sem fast aðsetur hafa, sem hagnað geta haft af þeim. Þessvegna álít jeg það yfirleitt skakka stefnu, að vera ávalt að leitast við að ná sem víðtækustum rjettindum til þess að leggja útsvar á fólk. Vinnu þessa aðkomufólks ber fremur að skoða sem nauðsynlegan vinnukraft, sem bæjar- og sveitarfjelög eiga að þiggja með góðu geði. En útsvarsálagningin hlýtur að koma af stað talsverðu misrjetti. Þó að jafnvel aðeins væri lagt útsvar á skipshafnir á þeim skipum, sem öfluðu vel, yrði þetta samt rangt, því að útilokað er, að nægilegt tillit yrði þar tekið til kringumstæðna þess, sem greiða á útsvarið. Tel jeg samt, að ekki verði komist hjá að samþykkja frv.; það er afleiðing af starfi síðasta þings. En jeg álít nauðsynlegt að samræma alla þessa löggjöf, bæði fyrir kaupstaði og sveitir.