28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frsm. meirihl. (Jón Baldvinsson):

Jeg hefi áreiðanlegar upplýsingar um, að það mun vera föst venja í mörgum sveitum landsins, að leggja útsvar á þá, sem vinna þar 3 mánuði eða lengur. Hv. þm. Barð. (HK) þóttist ekki þekkja til þessa, og má það vera rjett; jeg get ekki fullyrt, að þetta sje á öllu landinu. En nokkuð margir hv. þm. hafa skýrt mjer frá því, að í þeirra sveitum sje einmitt þessi regla um álagningu. Ætla jeg að nefna nokkra hreppa, til þess að það sje fest í þingtíðindunum, af því svo mikið er deilt um það. Hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir skýrt mjer frá, að þessi sje reglan í Neshreppi í Norðfirði, að leggja á þá, sem eru 3 mánuði eða lengur. Sumir sleppi vitaskuld, en þetta sje þó reglan. Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir sagt mjer, að þetta sje gert í Öngulsstaðahreppi. Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) segir sama um Öxnadalshrepp. Hv. þm. Snæf. (HSteins) skýrir frá því, að á menn þaðan sje lagt útsvar á Vestfjörðum, þegar þeir dvelja þar þrjá mánuði eða lengur. Sama saga er sögð úr Ljósavatnshreppi, að þar hefir verið lagt á kaupafólk, sem stundar atvinnu þar þrjá mánuði eða lengur. Að sögn hv. þm. Ak. (BL) á þetta sjer einnig stað í Svalbarðshreppi. Hv. 1. þm. Rang. (EP) kveður hafa verið lagt útsvar á menn í hans kjördæmi, sem dvalið hafa þar við smíðar, en raunar ekki nema þeir hafi verið þar í 6 mánuði. Þá er mjer persónulega kunnugt um, að í Hnífsdal hefir sami siður verið uppi. Nægir þetta til að sýna mönnum fram á, að hjer er ekki um einsdæmi að ræða, heldur tíðkast þetta víðsvegar um land. Þessvegna er óskiljanleg sú mótstaða, sem er gegn því, að láta Hafnarfjarðarkaupstað fá þennan sama rjett.

Hv. frsm. minnihl. (MT) talaði um, að Reykjavík hefði í þessu efni rjett fram yfir önnur bæjarfjelög landsins. Jeg þykist hafa sýnt fram á, hve þetta er ástæðulaust. En það væri máske allra hluta best, að hætta þessum eltingaleik strax, en reyna fremur á friðsamlegan hátt að kippa málum þessum í viðunandi horf. Þetta er ekki, hvort sem er, nein ófriðsamleg „pólitík“ hjá þessum kauplúnum, eins og hv. 1. þm. Árn. (MT) ljet í veðri vaka, heldur er það sjálfsvörn þeirra, til þess að fylgjast með í þessu kapphlaupi í útsvarsálagningu, sem sveitirnar hafa tekið upp.

Hv. þm. Borgf. (PO) þarf ekki að svara, enda hefi jeg gert það sumpart í því, sem jeg hefi áður sagt. Hann vildi mótmæla því, að sveitirnar hefðu átt upptökin að þessum eltingaleik með skattaálagningar. En eins og annar hv. þm. orðaði það, þá hefir hv. þm. (PO) á undanförnum þingum lagt höfuð sitt í bleyti, til að reyna að finna upp nýja, ímyndaða tekjustofna fyrir sveitirnar. Sú stefna á áreiðanlega upptök sín úti um landið, jafnvel þó einhverjir kaupstaðirnir hafi reynt að fylgjast með.