11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Það er alveg rjett hjá hæstv. fjrb. (JÞ), að ef þessi fjárhæð verður lækkuð, þá verður ekki unt að fylgja þeirri reglu, sem í tillögunni er sett. Og með tilliti til þess, að það er ekki fljótgert að búa til fastar reglur fyrir slíkri úthlutun, en hinsvegar fanst mjer sjálfsagt að hafa einhverja slíka reglu fyrir stjórnina við að styðjast, svo að ekki væri úthlutað af handahófi, þá er þessi fasta upphæð tekin. Hv. frsm. síðari kafla fjárlagafrv. (TrÞ) kvað það óviðkunnanlegt að koma með till. svona seint. Má vera, en mjer finst ekki, að þær upplýsingar, sem fram eru komnar, hafi neitt á móti því, heldur sje það rjettlátt að bera hana fram. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir upplýst, að fjhn. beggja deilda hafi komið sjer saman um nokkra fjárhæð til úthlutunar handa lægst launuðum starfsmönnum landsins, og er það ekki annað en gleymska, að slík tillaga hefir ekki komið frá henni. En ef á að samþykkja till. með 20 þús. kr. uppbót, þá þarf að búa til nýja reglu, en til þess vinst ekki nokkur tími.

Jeg get verið samþykkur hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um það, að þetta nái alt of skamt; en það verður nú svo, að þeim verður ekki öllum bætt upp, sem þarf að bæta upp, en það er betra, að nokkrum verði bætt upp launin heldur en engum.