20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

49. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Baldvinsson:

Jeg geri ráð fyrir, að frv. þetta gangi til allshn., og af því að jeg á þar sæti, ætla jeg ekki nú að ræða neitt um stefnu þess. En það er eitt orð, sem hv. flm. nota í greinargerð frv., sem kemur mjer nú til að standa upp, og sem jeg vil telja vítavert af þeim að nota. Þar kalla þeir verkafólk, sem leitar sjer atvinnu hvar á landinu, sem hún býðst, yfirleitt „landshornafólk“. Það er alkunnugt, að þetta orð er aðeins notað í niðrandi merkingu, og er því allsendis óviðeigandi, að það skuli, í skjölum þingsins, sjást notað um verkafólkið í landinu.