06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

66. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að vera langorður um málið á þessu stigi. Hjer hafa heyrst raddir um, að rjettast væri að taka það af dagskrá. Það getur ekki komið af öðru en því, að þeir hv. þm., sem svo mæla, hafi alls ekki lesið frv. því að þótt svo væri gert um annað mál hjer, þá er svo, að það, sem deilt var um í því sambandi, er aðeins lítill hluti af þessu frv.

Þetta frv. er flutt að mestu eftir ósk bæjarstjórnarinnar á Ísafirði, aðeins hefir verið bætt dálitlu inn í það og einu atriði slept. Jeg skal gjarnan geta um það atriði; það var um aldurstakmark manna í sambandi við atkvæðisrjett í bæjarmálefnum. Bæjarstjórnin fór fram á, að aldurstakmarkið væri miðað við 21 ár í stað 25 ár. Bæði er það, að jeg er þessu mótfallinn, og eins hitt, að farið var fram á þetta hjer í fyrra í öðru frv., og hafði það þá lítið fylgi; þessvegna er því slept í þessu frv. Annars skal jeg ekki verða til þess að vekja umr. á ný um það, sem hjer hefir áður verið deilt um, hvernig samræma megi ákvæðin um útsvarsskyldu manna í kaupstöðunum við Reykjavíkurlögin.

Í þessu frv. eru ýmsar aðrar breytingar, sem jeg vonast eftir, að hv. þd. sjái ekki ástæðu til að vera á móti, heldur leyfi að ganga fram, svo sem t. d. um dráttarvexti á ógoldnum útsvörum. Það er gert til þess að hjálpa bæjarsjóði til að ná inn gjöldunum, og eins til að hvetja menn til skilsemi. En á því hefir, eins og kunnugt er, bólað síðan á stríðsárunum, að menn hafa ekki verið sem skilsamastir, og það eins, þótt þeir geti goldið, en hinu opinbera er skylt að stuðla að því, að koma þessari venju af. Sömuleiðis er í 1. gr. nýmæli fyrir Ísafjarðarkaupstað, en það er alveg samskonar ákvæði og samþ. var í Reykjavíkurlögunum í fyrra.

Hvað líður breytingunum í fyrstu málsgrein 2. gr., þá sje jeg ekki ástæðu til að leggja kapp á, að þær verði samþ., ef Hafnarfirði verður neitað um sömu ákvæði, því að þá geng jeg alveg út frá því, að þetta mál verði athugað rækilega fyrir næsta þing, og að þá verði komið samræmi á lög sveitanna og bæjanna, að því er þetta snertir. En jeg vil benda á það, að þó að báðar umræddar breytingar verði samþ., þá leiðir það aðeins til þess, að koma samræmi á í lögunum, eins og þau eru nú. Og þó að nú yrði sett milliþinganefnd í málið, þá er valt að treysta því, að till. hennar verði strax gerðar að lögum. Eru mörg dæmi þess, að milliþinganefndir hafa starfað og borið fram till. og frv., sem erfitt hafa átt uppdráttar og seint orðið að lögum. Ætti því ekki að skaða, þó að Ísafjörður og Hafnarfjörður fengju nú sömu rjettindi og Reykjavík, því að það kemur aðeins samræmi á í lögunum.

Af þeim breytingum, sem farið er fram á í frv., er sú annars merkust, sem er í 4. gr., um yfirskot í útsvarskærum. Það er gert ráð fyrir því, að skjóta megi slíkum kærum til yfirskattanefndar Reykjavíkur. Jeg vil ekkert um það segja, hvort þessi leið, sem hjer er farin, að skjóta skuli þessum málum til yfirskattanefndar Rvíkur, er heppilegri en sú, að skjóta þeim til atvinnumálaráðuneytisins. En hitt er augljóst, að nauðsyn ber til að fá ákvæði um þetta í lögin. Eins og hv. þdm. vita, þá eru niðurjöfnunarnefndir kosnar af sömu aðilum og bæjarstjórnirnar, og því engin trygging fyrir, að þær hafi ekki á sjer sama pólitískan blæ. Er í þessu efni nauðsyn, að fullu rjettsýni sje beitt og að tryggilega sje gætt jafnrjettis borgaranna. Að minsta kosti verður aldrei girt fyrir getsakir og kvartanir um, að ekki sje nægilega gætt jafnrjettis, þar sem niðurjöfnunarnefndin er úr sama flokki og þeim, er ræður í bæjarstjórn. Þess utan eru kunn fleiri dæmi um, að jafnvel hafi verið samið um útsvör sumra borgara, og er það vitanlega algerlega á móti lögum, og verður ekki gert án þess, að aðrir borgarar verði fyrir misrjetti. Því er ákvæði um yfirskot í þessum málum bráðnauðsynlegt. Hitt er ekki kappsmál, hvort skjóta eigi kærunum til atvinnumálaráðuneytisins eða yfirskattanefndar Reykjavíkur. Í lögunum í fyrra var eðlilegt mjög, að þetta væri bundið við nefndina. Með því kemur hún nú til að fást við slík mál, og því verður þetta ekki óeðlilegt. Eins ber þess að gæta, að sjálfsagt fylgja slíkum kærum svo góð málsgögn, að þau geta leitt til úrskurðar í málinu, hvort heldur sem yfirskattanefndin eða ráðuneytið á um þau að dæma.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Óska þess, að það fái að ganga til 2. umr. og hv. allshn.