02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í C-deild Alþingistíðinda. (2874)

70. mál, tilbúinn áburður

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil aðeins geta þess, út af ummælum hv. 2. þm. Skagf. (JS), að miklu fleiri skoðanir hafa verið uppi um þetta mál á búnaðarþinginu, en síst þessi skoðun. T. d. kom það fram, að landsverslunin tæki þessa verslun að sjer. Aðrir vildu, að Samb. ísl. samvinnufjelaga gerði það, en til þess að komast hjá ágreiningi um þetta, vildi jeg, að ríkisstjórnin annaðist framkvæmdir, eða fæli þær öðrum, ef henni litist svo að gera.