06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í C-deild Alþingistíðinda. (2882)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. (Hákon Kristófersson):

Eins og sjá má á greinargerð þessa frv., er það fram borið vegna ummæla, er fjellu í þessari hv. deild við 2. umr. frv. þess, sem nú er þriðja mál á dagskrá, og borið er fram fyrir tilmæli Hafnfirðinga. Jeg skal strax taka það fram, að jeg álít síst að undra, þó að Hafnfirðingar láti í ljósi óskir um, að fá að njóta samskonar hlunninda og Reykjavíkurbæ voru veitt hjer á Alþingi í fyrra með lögum um bæjargjöld í Reykjavík, sem þá voru illu heilli samþykt. Eins og hv. þm. er kunnugt, snýst aðalefni þessa frv. um það, hvort heimilt skuli Reykvíkingum, að leggja útsvar á menn, sem ekki hafa þar fast aðsetur, en eru þó fyrir tilviljun lögskráðir einhvern tíma ársins á skip, sem talið er eiga heimili í Reykjavík, en sem e. t. v. kemur þar ekki nema svo sem 5–6 daga á þeim tíma, sem þeir eru lögskráðir á skipið.

Þegar litið er til afstöðu þeirrar, sem jeg hefi alla tíð tekið til þessara mála, þá er síst að furða, þó að jeg beri nú fram frv. þetta, þar sem jeg hefi altaf verið því mótfallinn, að hin ýmsu bygðarlög landsins legðu sig í framkróka til að elta uppi utansveitarmenn, sem um tíma leituðu sjer þar atvinnu, til þess að leggja á þá útsvör. Jeg vil ekki draga það í efa, sem jeg hefi heyrt, að ýmsar sveitir hafi gengið svo langt í þessu efni, að þær hafi jafnvel lagt útsvar á kaupafólk. Slíkt er jafnmikil ósvinna og að Reykjavíkurbær skuli leggja útsvör á sjómenn, sem njóta þar engra annara fríðinda en að vera um tíma lögskráðir á skip, sem þar er talið skrásett.

Eins og gefur að skilja, er mál þetta komið í hið mesta öngþveiti, og hefir verið haldið fram ýmiskonar sundurleitum skilningi á hjer að lútandi lagaákvæðum. Sjerstaklega hefir menn greint á um það, hvernig skilja bæri orðin „fast aðsetur“ í þessu sambandi. Vil jeg í þessu efni skírskota til ummæla eins lögfræðings hjer í hv. deild við 2. umr. áðurnefnds Hafnarfjarðarfrumvarps, þótti mjer vænt um að heyra þann skilning, því að hann var sá sami, sem jeg hefi altaf lagt í þetta ákvæði, sem sje það, að svo verði að líta á, að heimilisfang, óslitið alt árið, verði að teljast „fast aðsetur“.

Jeg býst ekki við, að svo verði litið á, að jeg með frv. þessu baki Reykjavíkurbæ nokkurn verulegan fjárhagslegan hnekki, því að nokkru leyti styður frv. að tekjuauka fyrir bæinn, þó að það hinsvegar kunni að rýra tekjur hans eitthvað í sumum tilfellum. Jeg hefi talið rjett að heimila bænum að taka ákveðið hundraðsgjald af þeim launum, sem menn vinna þar fyrir og nema 6000 kr. eða meiru árlega, þó að menn þessir sjeu þar ekki heimilisfastir og hvort sem störf þau, sem þessi laun eru tekin fyrir, eru aðaleða aukastörf viðkomandi manna. Alt öðu máli er að gegna um sjómenn, þó að lögskráðir sjeu á reykvísk skip um tíma, og sem í raun veru stunda atvinnu sína úti á rúmsjó, oftast langt frá landhelgi Reykjavíkur og koma þar örsjaldan í land.

það er yfir höfuð að tala alls ekki rjett, að hin ýmsu bygðarlög landsins gerist mjög ásælin í því efni, að skerða gjaldþol hvers annars, en svo verður altaf, ef þeim er heimilað að leggja útsvör eftir vild sinni á utansveitarmenn, sem e. t. v. dvelja þar aðeins örstutt.

Eftir því sem jeg hefi hlerað, eru örlög þessa frv. fyrirfram ákveðin. En jeg mun ekki taka þau nærri mjer, því að jeg býst við, að fleiri frv. um þessi efni kunni þá að fara sömu leiðina.

Það hefir verið talað um það, hjer í þessari hv. deild, að nauðsynlegt væri að skipa milliþinganefnd, til þess að ráða málum þessum til lykta og samræma löggjöfina í sveitarstjórnarmálefnum um land alt, eftir því sem við verði komið.

Má vel vera, að þetta sje heppilegt, enda þótt jeg fyrir mitt leyti hafi fremur litla trú á því, að till. milliþinganefndar geti ekki valdið ágreiningi, og styðst jeg þar við reynslu fyrri tíma.

Eins og jeg tók fram í upphafi, þá er ekki nema eðlilegt, að Hafnarfjörður fái sömu heimild til útsvarsálagningar sem Reykjavík var veitt í fyrra. Það er í rauninni sjálfsagt. En af því að jeg er á móti þeirri heimild fyrir hvern sem er, þá hefi jeg borið þetta frv. fram, til þess að kippa út úr Reykjavíkurlögunum stærsta agnúanum, sem á þeim eru, að mínu viti.

Læt jeg svo staðar numið að sinni og vona, að enginn hafi fundið sig krenktan af þessum orðum mínum.