06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Þó að ekki hafi orðið úr því, að jeg tæki til máls hjer á dögum, þegar Hafnarfjarðarfrv. var til umr., eins og jeg þó hafði ætlað mjer, þá er ekki síður ástæða fyrir mig að segja nokkur orð um frv. þetta, sem nú er til umr.

Jeg verð að segja, að mjer þykir lambið, sem hv. þm. Str. (TrÞ) talaði um á dögunum, vera farið að byrsta sig við úlfinn, þar sem frv. þetta er fram komið. Og mjer finst þetta sama lamb byrsta sig nokkuð mikið við úlfinn í umr. yfirleitt, þegar talað er um, að Reykjavík hafi með lögunum frá síðasta þingi fengið meiri hlunnindi en önnur sveitarfjelög hafa, og að gengið hafi verið á rjelt þeirra í þeim lögum.

Þessu hefir verð haldið fram, þrátt fyrir það, að fyrir löngu síðan hefir sveitarstjórnarlögunum verið breytt í sama anda sem kom fram í Reykjavíkurlögunum í fyrra.

Jeg get fullkomlega viðurkent þá lögskýringu, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) lýsti hjer um daginn, í sambandi við Hafnarfjarðarfrv., sem nú liggur fyrir þinginu, og hafði eftir öðrum manni, sein við báðir metum mikils. En sá hængur er á, að þessi lögskýring er eldri en sveitarstjórnarlögin, sem nú gilda. Og auk þess sem þau breyttu í ýmsu eldri ákvæðum, þá hefir anda þeirra laga síðan verið breytt svo gersamlega, að þó að lögskýring þessi hafi verið rjett, þegar hún var gefin, árið 1889, þá nær hún engri átt nú. En það eru ekki Reykjavíkurlögin frá s. l. ári, sem gera þetta að verkum, heldur ýmsar breytingar, sem áður hafa verið gerðar, ekki síst breytingin 1922.

Til skýringar skal jeg nefna eitt dæmi af mörgum. Jeg veit með vissu, að s. l. sumar fór fátækur maður hjeðan úr bænum, hálfsmánaðar tíma, austur í Ölfus, og heyjaði þar handa nokkrum rollum, sem hann á. Honum var gert að greiða 40 kr. útsvar þar eystra. Ef það er brot á anda sveitarstjórnarlaganna, að heimila Reykjavíkurbæ að leggja útsvar á atvinnu þá, sem menn njóta á skipum, sem heima eiga í bænum, þá er þetta fulteins mikið brot á anda þeirra laga.

Þessvegna er það, að þegar þetta frv. fer aðeins fram á að breyta ákvæðum Reykjavíkurlaganna, þá felst í því mikið misrjetti gagnvart Reykjavíkurbæ.

Jeg skal játa, að það getur verið mikið álitamál, hvort rjett sje, að sveitarfjelögin geri mikið að því, að elta utansveitarmenn uppi með útsvarsálagningar. Hinsvegar eru skoðanir skiftar um þetta mál, og telja margir sanngjarnt, að menn greiði eitthvað til sveitar, þar sem þeir njóta atvinnu sinnar. En hvað sem annars má segja um þetta atriði, þá ætti öllum að vera það ljóst, að aldrei getur náð nokkurri átt, að undanskilja Reykjavík og Hafnarfjörð rjetti, sem önnur hjeruð landsins hafa fengið, eða a. m. k. færa sjer dyggilega í nyt. Þessvegna er frv. þetta óviðeigandi að svo stöddu.

Mjer fellur vel, ef það er rjett, sem hv. flm. (HK) sagði, að í ráði væri að taka öll sveitarstjórnarmálefni landsins til rækilegrar yfirvegunar. Þess væri full þörf. Hinsvegar mælir full sanngirni með því, að samþ. Hafnarfjarðarfrv. nú á þessu þingi, þó að í ráði kunni að vera að samræma löggjöfina fyrir sveitir og kaupstaði í þessum efnum. Ef það verður ofan á, að heimila sveitarfjelögum yfirleitt ekki að leggja útsvör á utansveitarmenn, þá er hægast að breyta þessu ákvæði einnig í Hafnarfjarðarlögunum, þegar þar að kemur.

Annars skal jeg ekki hafa á móti því, að frv. þetta gangi til 2. umræðu og nefndar.