06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í C-deild Alþingistíðinda. (2884)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. (Hákon Kristófersson):

Mig furðar alls ekki á því, að þm. Reykvíkinga andmæli frv. þessu.

Jeg hefi litið svo á, alt þangað til annað hefir verið gert kunnugt hjer í hv. deild, að alment sje ekki lagt útsvar á verkafólk úti um bygðir landsins, t. d. kaupafólk, sem stundar atvinnu aðeins skamma stund utan heimilissveitar sinnar. Jeg skoða það ekki atvinnurekstur, þó að maður dvelji hjá mjer sem kaupamaður um tíma og fái ákveðið kaup fyrir. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði frá fátækum manni, sem varð að greiða 40 kr. útsvar austur í Ölfusi, fyrir það eitt, að hann heyjaði þar nokkra hesta um hálfsmánaðar tíma. Þó að slík svívirða kunni að geta komið fyrir á einstöku stað, þá er ekki þar með sagt, að endilega þurfi að lögheimila slíkt um land alt. Eða er það algengt, að hreppsnefndir landsins leyfi sjer að sýna slíka óskammfeilni? Jeg vil leyfa mjer að mótmæla því, að svo sje. A. m. k. þekkist slíkt ekki á Vesturlandi, þar sem jeg þekki til. Jeg veit ekkert dæmi þess, að þar hafi hreppsnefndir sýnt svo mikla óbilgirni eða gerst svo yfirgangssamar, að þær leyfðu sjer nokkuð svipað þessu. En því miður heyrast slíkar sögur hjer austan úr sýslum, en jeg vona, að hv. 1. þm. Árn. (MT), sem er þessum málum kunnugastur þar eystra, geti mótmælt þessum sögusögnum.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) taldi frv. þetta óviðeigandi eins og sakir stæðu. Það er langt frá því, að jeg vilji gera lítið úr áliti hans, en þó verð jeg að vona, að þeir hv. þm. verði fleiri, sem telja frv. einmitt vel viðeigandi, þar sem það stefnir í þá átt, að nema í burtu úr Reykjavíkurlögunum meingallað ákvæði, sem illu heilli slæddist inn í þau á síðasta þingi.

Þá taldi hv. þm. (JakM) rjett, að Hafnarfjarðarfrv. næði fram að ganga, þó að þetta frv. fjelli. Það er satt, að þessi skoðun hefir dálítið til síns máls, þar sem hún er bygð á því, að ekki sje nema eðlilegt, að Hafnfirðingar fái sömu hlunnindi sem Reykvíkingum voru veitt í fyrra. En þar sem jeg býst við því, að Reykjavíkurbær muni ekki í ár nota heimild sína til útsvarsálagningar gagnvart Hafnfirðingum, þá fæ jeg ekki sjeð annað en að Hafnfirðingar megi una því, að bíða næsta árs, og enda ekki óviðeigandi, að bæði frv. fari sömu leiðina, ef þessu frv. mínu er búinn dauði.

Samlíkingu hv. þm. (JakM) um lambið, sem væri farið að byrsta sig við úlfinn, skildi jeg ekki. Mjer finst jeg vera svo friðsamur maður yfirleitt, að jeg vona, að hv. þm. (JakM) hafi ekki beint þessu að mjer á nokkum hátt.

Jeg skal loks taka það fram, sem jeg gleymdi áðan, að jeg óska, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til hv. allshn. Hún er að mínu viti vel fær um að taka málið til nauðsynlegrar og sanngjarnar yfirvegunar.