06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í C-deild Alþingistíðinda. (2886)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Klemens Jónsson:

Mjer finst þetta mál altaf vera að komast í meira og meira óefni, og versna með ári hverju, vegna hringlandaskapar í því. Sveitarstjórnarlögin höfðu ekki verið lengi í gildi fyr en farið var að breyta þeim, og sveitarfjelög fóru að reyna að seilast í nokkrar krónur í sveitarsjóð af utanhreppsmönnum, sem ráku einhverja lítilfjörlega atvinnu á staðnum. Ef utanhreppsmaður átti eitthvert ítak í sveitinni, slægju eða þessháttar, þótti sjálfsagt, að hann greiddi eitthvað gjald af þessum afnotum í sveitarsjóð. Þetta hefir svo farið versnandi ár frá ári, og nú er komið í fullkomið óefni. Það er enginn vafi á því, að það var rangt gert, að samþykkja lagabreytinguna í fyrra, en þó að einu sinni sje rangt að farið, er ekki sjálfsagt að halda því áfram þing eftir þing. Úr því sem komið er, sje jeg ekki önnur ráð en að málið verði tekið til meðferðar af stjórninni sjálfri, eða að hún skipi milliþinganefnd. Hæstv. atvrh. (MG) hefir látið á sjer skilja, að sjer væri ekki ókleift að koma fram með breytingu á sveitarstjórnarlöggjöfinni fyrir næsta þing, og það verður nauðsynlegt að koma meira samræmi á milli löggjafarinnar í sveitum og kaupstöðum, eins og nú er komið.

Jeg er ekki að mæla á móti þessu frv. og mun greiða því atkvæði til nefndar. En annars álít jeg, að hv. allshn. þurfi ekki að flýta sjer með að afgreiða þetta mál. Að öðru leyti vænti jeg þess, að stjórnin taki málið til athugunar. Þetta hringl fram og aftur á hverju þingi má ekki ganga svo lengur. Ef þannig heldur áfram, endar með því, að tímatakmark verður ekkert, ekki mánuðir, ekki vikur, ekki einu sinni dagar, því að það endar með því, að ef hrossakaupmaður sendir erindreka norður í Húnavatnssýslu eða vestur í Dali, sem heldur þar hrossamarkað part úr degi, þá heimtar sveitin útsvar af arðsamri atvinnu rekinni þar. Fyrir þetta verður ekki girt nema með því móti einu, að fastar og samræmar reglur sjeu settar, er gildi jafnt sveitarfjelög og kaupstaði.