07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í C-deild Alþingistíðinda. (2897)

78. mál, málamiðlun og gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Bjarni Jónsson:

Jeg vil svara þessum síðustu orðum háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) því, að jeg átti eigi við daglaun hans sem þingmanns, er jeg nefndi hann daglaunamanna-þingmann. Fyrir þingstörf sín á þessi háttv. þm. ekki kaup skilið, og er hann bitlinga-þingmaður í þeim efnum sem öðrum. Jeg sje engin stór vandkvæði á því, að fá menn til þess að hlíta gerðardómi, og til þess eru ákvæðin um dagsektir, sem við eru lagðar, ef eigi er farið eftir dóminum. En dugi ekki nein ráð til þessa, mun háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) engin skotaskuld úr því verða, að finna önnur betri, sem duga munu. Hann fann nóg ráð til þess, að ríkið tæki alla síld, hvort sem menn vildu eða eigi. Hvort átti ríkið sjálft að róa skipunum eða hafði háttv. þm. ráð til að neyða menn til að veiða síldina, þótt þeir eigi vildu? Það er annars margt skrítið hjá þessum háttv. þm. (JBald); hann sagði, að jeg væri að ala á stjettaskiftingu í landinu, er jeg talaði um alþýðu manna, í þeirri einu algengu og rjettu merkingu þess orðs. Þær eru æði grautarlegar, röksemdir þessa háttv. þm. (JBald). Þar er alt einn grautur, sem enginn hendir reiður á. Hann taldi síður mundu ganga saman samninga, ef von væri þess, að til dómstólanna mætti fara með þessi mál; en það er einmitt þvert á móti; menn vita eigi fyrirfram, hvernig dómar falla, og munu því flestir heldur kjósa að ráða úrslitunum sjálfir með samningum en bíða óvissra dómsúrslita. Þetta sjá allir, og þarf eigi að skýra þetta fyrir öðrum en þeim, sem öllu rugla í graut, eins og háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) gerir.