24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1926

Hákon Kristófersson:

Jeg hafði í upphafi hugsað mjer að sitja hjá þessum eldhúsdagsumr., eins og jeg hefi raunar gert áður í því umræðuþvargi, sem átt hefir sjer stað í hinum ýmsu málum, og er að mínu áliti með öllu óþarft. Þegar jeg nú legg saman í huga mínum, hvað mikill tími hefir farið til þess að ræða um tóbakseinkasöluna, varalögregluna og hið svonefnda Krossanesmál, og nú að síðustu í eldhúsverkin, sem ekki er þó annað en margendurtekin þvæla um sömu málin upp aftur og aftur, þá telst mjer svo til, að muni samtals nema hálfum mánuði, og eftir dómi þar um kunnugra manna telst mjer svo til, að þetta muni kosta um 26 þús. krónur, þegar miðað er við, hvað þingið kostar á dag. En ef maður dregur nú frá þeirri upphæð það, sem ætla mætti, að fullkomlega þingleg afgreiðsla þessara mála hefði mátt kosta, t. d. 4 þús. kr. í mesta máta, þá hafa farið í algerðan óþarfa um 22 þús. kr. Alþingistíðindin munu best sýna það á sínum tíma, hverjir hjer hafa verið mest að verki og þar af leiðandi mestri eyðslu valdið. En út í þetta ætla jeg ekki að fara frekar að sinni, heldur snúa mjer að því málefni, sem aðallega kom mjer til þess að standa upp að þessu sinni, sem sje þessi fræga Krossanestillaga, sem borin hefir verið fram af hv. þm. Str. (TrÞ) og valdið hefir þriggja daga umr. hjer í deildinni, en er þó enn á ný undin inn í eldhúsdagsumræðumar, og samhliða því haldið áfram hinum mjög svo ósanngjörnu og ómaklegu og ósönnu aðdróttnnum og getsökum í garð okkar Íhaldsmanna, út af aðstöðu okkar gagnvart þingsályktunartillögunni. Það skal jeg þó þegar taka fram, að af öllum þeim rakaleysum, sem fram hafa verið bornar því máli til stuðnings, virtist mjer þó allra ljettvægast og síst viðeigandi það, sem fram kom í síðustu ræðu hv. flm. (TrÞ), og allra síst hefði jeg búist við því, að hann myndi á þann hátt, sem hann gerði, draga Björn sál. Jónsson, fyrrum ráðherra, inn í þessar eldhúsdagsumr. Og það vil jeg leyfa mjer að fullyrða, að ekki muni leika á tveim tungum um það meðal þjóðarinnar, að framkoma sú, er Alþingi sýndi 1911 gagnvart Birni sál. Jónssyni, þá aldurhnignum og heilsubiluðum manni, var síður en svo til sóma, og færi betur á því, að slíkt endurtæki sig ekki. Viðkomandi því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) tók fram, að þá hefði hv. þm. Dala. (BJ) verið meðal þeirra, sem studdu að því að skipa rannsóknarnefnd á þáverandi ráðherra, en hafi nú með rökstuddri dagskrá viljað bægja frá Krossanesþáltill., verð jeg að segja það, að jeg tel sama hv. þm. Dala. (BJ) meiri en ella, er hann vill eigi taka þátt í slíku nú, enda þykist jeg þess vís, að hann hafi eftir á sjeð missmíði á framkomu sinni 1911.

Jeg sagðist hafa ætlað að sitja hjá þessum löngu umr., en af því að Krossanesumr. hafa nú endurtekið sig, með öllum sínum aðdróttunum til okkar íhaldsmanna, finn jeg ástæðu til að gera grein fyrir aðstöðu minni og atkv. til þess máls, og þó að nú sje komið fram á nótt, sje jeg ekki eftir þeim að hlusta á mig fáeinar mínútur, sem mest hafa vaðið elginn í því máli.

Eins og rjettilega hefir verið tekið fram af þeim hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), þá hefir mál þetta vakið mikið umtal úti um land.

En af hverju?

Af því að blöðin, sem málið hafa tekið til meðferðar, hafa skýrt svo frá öllum málavöxtum, að menn hafa hugsað sem svo: Ætli hæstv. stjórn hafi nú eitthvað mistekist þarna ? Svo er að minsta kosti í mínu kjördæmi, því að þar hafa menn einna mest gefið gaum að því, sem um mál þetta hefir verið ritað í einu allvíðlesnu blaði, sem heitir „Tíminn“, þó það hinsvegar sje mjög þekt að því að fara á snið við sannleikann, þegar það þykist þurfa að ráðast á andstæðinga sína.

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg treysti mjer ekki til að verja gerðir hæstv. stjórnar í máli þessu á fundum, sem haldnir voru fyrir þing í vetur í mínu kjördœmi, þó jeg fyrir mitt leyti væri sannfærður um, að stjórnin mundi alls ekki ámælisverð fyrir afskifti hennar af málinu. Til þess var jeg málavöxtum of ókunnugur, því að vitanlega gat jeg ekki bygt neinar ályktanir á því, sem andstöðublöð stjórnarinnar höfðu um málið ritað.

En síðan jeg kom hingað suður og hefi kynst öllum málavöxtum, en sjerstaklega þó eftir að hafa hlustað á hina mjög svo ítarlegu og rökumstuddu ræðu, er hæstv. atvrh. (MG) flutti hjer í deildinni, er jeg fullkomlega sannfærður um, að öll framkoma hans í þessu máli hefir verið hin hreinlegasta, eins og líka við mátti búast af hans hálfu, og jeg get hætt því við, að í hans sporum hefði jeg gert alt hið sama.

Jeg býst við, eftir því áliti sem jeg hefi á hv. þm. Str. (TrÞ), að hann hafi frekar í ógáti en vísvitandi fært málið úr rjettu lagi og afbakað í blaði sínu, og eins og fram hefir komið, fært afskifti stjórnarinnar á versta veg. Um flutning málsins hjer í deild skal jeg láta ódæmt. Það sýna Alþt. best á sínum tíma. Jeg leyfi mjer ekki að taka eins mikið dómsvald yfir gerðum annara eins og sumir hv. þm. hafa gert, enda efast jeg um, að sanngirnismælikvarði sumra þessara hv. þm., sem þeir leggja á gerðir andstæðinga sinna, sje löggiltur. Og hvort það sje af rjettlætishvöt eða öðrum ástæðum, sem mál þetta er fram borið í þinginu, skal jeg láta ósagt um. Það verða þeir, sem hlut eiga að máli, að gera upp við sína eigin samvisku.

En það verð jeg að segja, að mjer er óskiljanlegt með öllu, að hv. þm. skyldu ekki geta sameinað sig um dagskrártill. þá, sem hv. þm. Dala. (BJ) bar fram í Krossanesmálinu. Ef þeim mönnum, sem standa að hinni svonefndu Krossanestill., gekk það eitt til að bera hana fram að fá því til vegar komið, að þeim, sem að þeirra dómi hefðu orðið fyrir halla af síldarsölunni í Krossanesi, yrði það bætt að nokkru eða öllu leyti, þá hefði mátt ætla, að þeir hefðu getað aðhylst dagskrártill., þar sem hún tók það beint fram, að rannsókn skyldi hafin í málinu, ef einn eða fleiri viðskiftamenn verksmiðjunnar gerðu kröfur til þess. En ef hún aftur á móti var borin fram í því skyni að bregða fæti fyrir hæstv. stjórn, þá var ekki þess að vænta, að þeir, sem stóðu að þáltill., gætu fallist á dagskrána.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði í þessu sambandi, að hv. þm. Dala. (BJ) hefði ekki lesið þau skjöl, sem fyrir lægju. (JakM: Það var hv. þm. Dala., sem sagði það). Jeg efast heldur ekki um, að háttv. þingmaður Dala. (BJ) fari hjer rjett með, því að það mun vera fyrir honum eins og mjer, að hann hafði fyrir þing aðeins sjeð ummæli blaðanna, en þau eru reyndar svo hál, að eftir þeim er ekki farandi, og vona jeg, að hv. 3. þm. Reykv. verði mjer sammála um það, þegar jeg bendi honum á, þó ekki sje nema aðeins eitt dæmi af mörgum.

Fyrir nokkrum árum stóðu í blaði, — sem að dómi hv. 3. þm. Reykv. er sjálfsagt merkilegt blað — eftirtektarverð ummæli um þáverandi og núverandi forsrh., sem fóru í þá átt, ef sönn hefðu reynst, að stappaði nærri landráðum. Þá þekti jeg hæstv. forsrh. minna en jeg geri nú, og mjer varð á að hugsa: „Er Jón Magnússon virkilega svona vondur maður?“ Þessu tók hæstv. forsrh. með stillingu, þegar hann fór inn á málið í hv. deild; jeg man ekki hvort hann viðhafði orð eins og saurblað, eða því um líkt.

Nú, en 1 eða 2 dögum eftir þetta kemur blaðið út aftur, og segir þá, að hæstv. forsrh. hafi skotið sjer inn undir þinghelgina, því að annars hefði hann ekki leyft sjer að viðhafa slík orð, og var samþykt af hv. deild, samkvæmt ósk forsætisráðherra, að blaðinu skyldi heimilt að höfða mál á móti honum, ef því sýndist. En mjer er ekki kunnugt um, að blaðið færi í mál við hæstv. forsrh. En af hverju ? Af því, að ritstjóri blaðsins hefir eflaust sjeð, að hann hafði hlaupið á sig og farið með ósannindi, sem hann treysti sjer svo ekki til að standa við.

Þetta hefir nú átt sjer stað fyr og síðar og hjá fleiri blöðum en þessu. Jeg ætla ekki að nefna blaðsnepil, sem jeg tel langt fyrir neðan virðingu nokkurs heiðarlegs manns að fást við. En þessi blaðsnepill hefir, eins og kunnugt er, ekki látið sjer nægja að ráðast á okkur Íhaldsmenn með svívirðilegum óþverraorðum og strákslegustu getsökum í sambandi við Krossanesmálið, heldur hefir hann farið þeim óvirðingarorðum um þingið, að sem betur fer eru það einsdæmi.

Þessi litli útúrdúr var nú bara til þess að benda á, hvað sumum blöðum er gjarnt á að hlaupa á sig og fara með rangt mál.

Hvað snertir Krossanesmálið, man jeg ekki betur en að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) kvæði svo fast að orði, „að það gengi ósvinnu næst að samþykkja ekki tillöguna.“ Mikil ósköp! Mig minnir, að þegar borin var fram tillaga um rannsókn á Íslandsbanka árið 1923, og þá eins og nú guð væri lofaður fyrir að til væri hæstirjettur, sem sje dómur þjóðarinnar, væru viðhöfð þessi orð. Síðan var málið borið undir þennan „hæstarjett“ — og hver varð niðurstaðan? Hún var ekki á þá leið, sem þeir menn höfðu hugsað, sem sögðu, að ósvinna væri að samþykkja ekki tillöguna. Því eins og kunnugt er, unnu andstæðingar þeirrar till. mjög glæsilegan sigur í kosningum þá, og trúa mín er, að enn mundi svo verða, mætti þjóðin sjálf leggja dóm á Krossanesmálið.

Að lokum skal jeg taka það fram, að jeg stóð ekki upp til þess að verja hæstv. stjórn, því til þess er hún fullfær sjálf, enda hefir mjer virst sífeld sókn af hennar hálfu, en ekki vörn.

Það er aðeins eitt, sem jeg vildi minnast ofurlítið á, sem sje það, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sætt ámæli út af drætti á stofnun landbúnaðarlánadeildarinnar. Jeg get ekki sjeð, að hann sje ámælisverður, með tilliti til þess, sem hann hafði hugsað sjer í málinu. Það veit vinur minn, háttv. þm. Str. (TrÞ). Við áttum „prívat“-samtal um það, og gerðum báðir ráð fyrir því í fyrra, að engar framkvæmdir yrðu á því ári. (TrÞ: Það er ekki rjett). Hann segir, að það sje ekki rjett. Hverjum skyldi standa nær en presti að vera sannleikans boðberi? Það er að vísu ekki vanalegt, að menn þurfi að greina stund og stað, nema í sjerstökum tilfellum. En þó ætla jeg að gera það að þessu sinni. Jeg man ekki betur en við stæðum við vegginn þarna á bak við stól hv. þm. og töluðum saman í mesta bróðerni.

Jeg hefi nú sagt þetta og þykist ekki hafa ráðist á háttv. þm. Str. (TrÞ), en hann hristir enn höfuðið! En sæmdar hans vegna mun jeg ekki segja meira, sem fram kom í samtali okkar þá. (Hlátur).

Því hefir verið haldið fram af háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að best væri fyrir hæstv. stjórn að samþykkja tillöguna. Jeg skal játa, að svo hefði mátt orða tillöguna, að ekkert hefði verið að því. En mjög hefði það verið heigulslegt af hæstv. stjórn að taka við rannsóknarnefnd á sjálfa sig. Jeg hugsa, að varla sjeu dæmi til þess, enda hjelt jeg, að hv. þm. Str. vissi, að það ljeki ekki á tveim tungum, hvert væri nú alþjóðarálit í þessu máli.