11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

88. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla því, að frv. gangi til nefndar. En mig undrar það, að hv. þm. Dala. skuli segja, að það sje svo vel úr garði gert, að ekkert megi að því finna. Jeg álít frv. meingallað, og skýt því til nefndar þeirrar, sem málinu verður væntanlega vísað til, að athuga það mjög vel. Jeg sje ekki, að það feli í sjer neinar breytingar, er fram ætti að ganga, nema ef til vill b-lið og d-lið. Annars er frv. þess eðlis, að mjög væri varhugavert að samþ. það.

Án þess að jeg vilji fara út í einstakar gr. frv., vil jeg þó benda á, að þar segir, að engan megi flytja fátækraflutningi, neina skriflegt samþykki hans sjálfs komi til. Hjer er alls ekki á það minst, að verið getur, að framfærslusveit verði mörgum sinnum dýrara en ella að hafa styrkþega sína í öðrum sveitum. Og svo er með fyrning styrkskulda. Hvernig á að skilja það atriði? Hvort á heldur að skilja það svo, að skuldin fyrnist, hafi ekki verið kallað eftir henni, eða þá af því, að hún hafi ekki náðst? Væntanlega athugar nefndin þetta.

Og hvernig í ósköpunum ætti að framfylgja fyrirmælum frv. í c-lið uppi í sveit? Hvernig eiga sveitastjórnir að vísa mönnum á atvinnu? Máske með því að segja: Jeg vil benda þjer á það, að fara til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar. Það er fjöldi togara þar og nóg atvinna. — Hafi sveitarstjórnir gert skyldu sína með þessu, þá er nóg, eða svo virðist mjer, að skilja megi ákvæði frv. hvað þetta snertir.

Jeg álít, að ef frv. þetta nær fram að ganga, þá sje stefnt að því, að gera umráðarjett sveitastjórna að engu. Og það mun þeim best kunnugt um, sem haft hafa með sveitarstjórnarmálefni að gera, að það eru ekki altaf þeir, sem bágast eiga, er biðja um styrk.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að tala frekar um frv. á þessu stigi málsins. Jeg vildi aðeins, að það kæmi fram hjer í deildinni, að til væri þeir menn, sem liti öðruvísi á frv. en hv. þm. Dala. gerir.