11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

88. mál, fátækralög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil ekki kannast við það, að frv. sje eins gallað og hv. þm. Barð. (HK) vill vera láta. Og ekki þarf það að vera gallað, þótt sá hv. þm. haldi því fram, að svo sje. Hann hneykslaðist mest á því, að samþykki manna skyldi þurfa að koma til um það, að þeir væri fluttir hreppaflutningi. Honum fanst það óþarft og hlæglegt, að slíkir menn skyldi hafa rjettindi. Jeg lit nú ekki svo á, að menn verði rjettlausir fyrir það, þótt þá hendi ólán. Þetta undrast hv. þm. Barð. (HK) mest. Það er máske af því, að hann leggur ekki mikla virðingu á þá menn, sem fluttir eru sveitarflutningi. Þetta er rótgróinn vani meðal manna og almennur hugsunarháttur, að þurfalinga megi reka eins og fje. Jeg hefi ekki haldið því fram, að farið sje beinlínis illa með þá, en þess eru dæmin, að menn hafa verið rifnir frá öllu sínu með valdi og sendir á sína sveit. Vil jeg því, að slíkir menn hafi þann rjett, að mega segja til, hvort þeir vilja það eður eigi.

Þá var hv. þm. (HK) óánægður út af c-liðnum, þar sem talað er um, að sveitastjórnir skuli vísa styrkþurfa mönnum á atvinnu. Hann spurði, hvaða atvinnu sveitastjórnir gætu haft handa þessum mönnum, en það er einmitt það, sem þær eiga að sjá um. Jeg skal benda hv. þm. (HK) á, að á síðastliðnum árum hefir hjer í Reykjavík verið unnið að jarðabótum að vetri til, skurðagrefti o. fl., og það merkilega er, að þessi vinna hefir sýnt sig að verða ekki mikið dýrari en ýmsar slíkar framkvæmdir, sem gerðar eru að sumri til. Jeg hygg, að slík vinnuþörf sje nægileg í sveitunum, en það getur verið, að það þurfi að benda mönnum á, að þarna sje atvinna fyrir hendi. Jeg segi ekki, að það sje í öllum árum hægt að vinna svona lagaða vinnu, en það verður ekki sagt, að það sje ekki hægt fyrir sveitastjórnir að skapa slíka atvinnu, enda vart nokkur hreppur til á landinu, þar sem ekki væri hægt að skapa hana. Ef þetta er skoðað niður í kjölinn, og menn bíta sig ekki alt of fast í rótgrónar venjur um meðferð á þessum styrkþurfum, eða sveitarlimum, sem þeir eru nefndir í fyrirlitlegri merkingu, ættu þeir að geta fallist á, að það þyrfti að breyta til frá því, sem verið hefir. Og frv. mitt miðar einmitt í þá átt, að bæta aðstöðu þeirra manna, sem eru svona illa settir í þjóðfjelaginu.

Hæstv. atvrh. (MG) var að telja eftir, það sem hann lagði til málanna í fyrra, að hann hefði samið brtt. um þetta. Það getur vel verið, að honum finnist mikið til um sitt lagavit, en sannast að segja fanst mjer ekki mikið til um þá brtt. hans. En ef það skyldi verða til þess, að hann greiddi atkv. með frv., að hann fengi að leggja eitt og eitt orð inn í það, þá skal jeg gefa honum tækifæri til þess, ef hann ekki greiðir atkv. með öðru en því, sem hann að einhverju leyti hefir sjálfur samið. En það kemur fyrir um lög, sem hann hefir borið fram, að bæði þingmenn og ráðherrar hafa þurft að leiðrjetta þau, og veit jeg ekki nema hann hafi sjálfur þurft að leiðrjetta eftir sig lög, sem hafa staðið í gildi svo sem eitt ár.

Þá fann hæstv. ráðh. (MG) að því, að jeg hefði ekki komið fram með þetta frv. í byrjun þings. En jeg hygg, að ennþá sje nægur tími eftir, því að jeg hygg, að hálfur annar til tveir mánuðir muni enn eftir af þingi, og ætla jeg ekki hv. þingmönnum, að þeir þurfi lengri tíma til að átta sig á þessu máli.