11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í C-deild Alþingistíðinda. (2908)

88. mál, fátækralög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það hefir verið látinn í ljós vafi um það, hvort hægt væri að gera þessa breytingu á fátækralögunum, vegna stjórnarskrárinnar, af því að það er tiltekið þar, að menn, sem hafi þegið af sveit, skuli ekki hafa kosningarrjett. En í sjálfum fátækralögunum er einmitt talað um styrk, sem ekki skuli talinn sveitarstyrkur, og í 27. og 28. gr. fátækralaganna er talað um styrk, sem ekki skuli talinn fátækrastyrkur. Í lögunum um berklavarnir er líka talað um styrk, sem ekki skuli talinn fátækrastyrkur. Jeg held þessvegna, að það sje misskilningur, ef nokkur heldur, að þetta frv. geti ekki staðist vegna stjórnarskrárinnar.

Hv. þm. Barð. (HK) tók það óstint upp fyrir mjer, sem jeg sagði, að það hefði falist í orðum hans, að hann liti svo á, að þurfalingar væri rjettlausir, en hv. þm. má sjálfum sjer um kenna, því að þetta fólst í raun og veru í orðum hans, og það kom berlega fram í seinni ræðu hans, því að hann vildi alls ekki hafa ákvæðið um það, að menn hefði neitt að segja um það, hvort þeir væru fluttir sveitarflutningi eða ekki. Hv. þm. sagði, að jeg vildi halda þeim hjer í Reykjavík, þótt það væri sveitarstjórninni nauðsynlegt að fá þurfalinga sína heim til sín. En þetta ber alt að sama brunni, því að þær geta ekki fengið þá til sín, nema með þeirra samþykki. Og ef þeir fá þennan rjett, þá hafa sveitastjórnirnar ekki lengur þetta skilyrðislausa vald yfir mönnunum, en það vill hv. þm. (HK) að þær hafi. Þetta er rjett hjá mjer, og getur hv. þm. því ekki ráðist að mjer fyrir það.

Þá kom það upp hjá hv. þm. (HK), og það get jeg vel fallist á, að honum sje kunnara um það, hvort hægt sje að starfa að jarðabótum vestanlands að vetri til. En jeg benti aðeins á, hvað var tekið upp hjer í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Það hefir gengið vel, þrátt fyrir það, þótt mikill klaki væri í jörðu, og jeg benti á, hvort ekki mundi hægt að vinna í fleiri sveitum, því að jeg hugði, að flestar sveitir landsins myndu eiga svo mikið ógert af slíku, að hægt myndi að koma fyrir mörgum dagsverkum.

Svo var það hæstv. atvrh. (MG). Það sem hann fann frv. til foráttu, var sjerstaklega a-liðurinn. Ef maður ætti 10 börn og hefði ekkert þeirra hjá sjer, og fengi styrk, þá skyldi það talinn sveitarstyrkur. Eftir mínu áliti er þetta mjög sjaldgæft og óheppilegt dæmi, sem hæstv. ráðh. (MG) tók. En ef hæstv. ráðh. (MG) er að finna að því, að frv. gangi ekki nógu langt, skal jeg með ánægju verða honum samferða í því að gera breytingar í þá átt. (Atvrh. MG: Já, að sumu leyti of langt, en í sumu ekki nógu langt). Þetta er fyrirsláttur. Þegar jeg hugsa til framkomu þessa hv. þm. (MG) í þessu máli á fyrri þingum, þykist jeg viss um, að hann muni ekki vilja miklar rjettarbætur.

Þá var hæstv. ráðh. (MG) að fetta fingur út í atriðið um vinnuna, og bjóst við, að það mundi vera hægt að segja mönnum að vinna „gratís“, það mundi víst ekki standa á atvinnunni. Jeg veit nú ekki, hvort menn, sem hafa verið sýslumenn og málaflutningsmenn árum saman, eru vanir því, að vinna fyrir ekki neitt, enda hygg jeg, að þetta sje ekki annað en útúrsnúningur hjá hæstv. ráðh., því að það er auðvitað engin atvinna, ef menn eiga að vinna „gratís“.