11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

88. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það kemur mjer undarlega fyrir, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) skuli nú vera á móti því, að breyta þeim ákvæðum, sem jeg nefndi, af því að hann var fáanlegur til þess í fyrra. (JBald: Sagði jeg það?) Já, óbeinlínis, með því að flytja frv. aftur, með sömu stórgöllunum og í fyrra. Það hlýtur að vera af því, að hann álítur það best þannig. Og um atvinnuna, sem hreppsnefndir og bæjarstjórnir eru skyldar að útvega, held jeg fast við, að það vantar í frv. ákvæði um, með hvaða kjörum vinnan á að vera og hvar. Það mundi ekki nægja, að vísa á atvinnu, t. d. í Ameríku eða fyrir sama sem ekkert kaup.

Annars fór hv. þm. eins og köttur í kringum heitt soð hjá því, að bera í bætifláka fyrir frv. eða svara nokkru því, sem jeg sagði, öðru en því, að hann sagði, að jeg vildi fara lengra en hann. Það er rjett, að því leyti, að ef lög eru sett um þetta, þá verður að vera einhver sanngirni í þeim, en í a-liðnum er engin sanngirni, og eins er það með b- liðinn, enda vill hv. flm. ekki ræða hann. Hann gekk líka inn á það í fyrra, að frv. væri hreinasta ómynd, eins og það var þá.