11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

1. mál, fjárlög 1926

Magnús Jónsson:

Það voru aðeins fáein orð út af brtt. frá nokkrum þm. um launaviðbót handa hinum lægst launuðu starfsmönnum ríkisins, ásamt nokkrum skriflegum brtt., og er jeg þessu meðmæltur eins og meiri hl. fjhn. Nd., sem styður þessar brtt. En hjer er þó slegið undan, þar sem þetta er aðeins fjárlagaupphæð til eins árs. Samkvæmt eðli málsins verður þetta að vera áætlunarupphæð; það er ekki hægt að ákveða upphæðina fyrirfram. Það getur vel orðið, að 20 þús. kr. verði t. d. of lítil upphæð, en eins getur líka farið svo, að ekki þurfi alla þá upphæð, þar sem dýrtíðaruppbótin er óákveðin. Viðvíkjandi brtt. hv. þm. N.-Ísf. (ÁÁ) hafa verið reiknaðar út allar þær upphæðir, sem þurfti að bæta upp, nema símameyjalaunin og farkennara, en ef þeim yrði bætt við, þyrfti ekki minni upphæð í viðbót en þá, sem jeg nefndi áðan, og líklega miklu meira. Þó að hver farkennari fyrir sig sje lágt launaður og fái ekki nema litla upphæð, þá segja þó reglurnar um uppbótina, að aldrei skuli reikna uppbótarhundraðstöluna af minni upphæð en 1000 kr., og eftir því fá allir farkennarar uppbót af 1000 kr., jafnvel þótt laun þeirra sumra nái varla þeirri upphæð. Jeg vil þó ekki vera að spilla fyrir farkennurunum, en þetta getur riðið málinu að fullu, og því vildi jeg sýna fram á, að þessi varatillaga er ekki neitt smávægileg, og ef háttv. þm. V.-Ísf. vill málinu vel, ætti hann að taka þessa varatillögu aftur, til þess að sigla ekki öllu í strand með því að fleyga málið á þennan hátt.