12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

90. mál, ungmennafræðsla

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg hefi borið frv. þetta fram hjer í hv. deild af þeirri ástæðu, að brýn nauðsyn ber til, að sett sje hið fyrsta allsherjarskipun um ungmennafræðslu. Frv. þetta er bygt á frv., sem milliþinganefnd samdi 1922. Hefi jeg þó tekið gagnfræðaskólana undan, og er því í frv. eingöngu um framhaldsmentun barna að ræða og unglingaskóla í sveitum. Að öðru leyti mun jeg ekki að þessu sinni rekja, í hverju vikið er frá frv. milliþinganefndarinnar. Mun nefnd sú, er fær málið til umsagnar, væntanlega bera frv. saman við allar þær tillögur, er fram hafa komið í þessu máli.

Jeg vil geta þess, að frv. er ekki borið fram sem algildur sannleikur í þessu máli, heldur mun jeg sem flm. fúslega taka til greina allar brtt., sem á rökum eru bygðar. Jeg veit, að í mörgu stendur frv. til bóta. Frv. er borið fram vegna þess, að nauðsynlegt er, að allsherjarskipulag komist á unglingafræðslu hjer í landi hið bráðasta.

Þingið hefir sýnt, að það viðurkenni rjett nokkurra einstakra hjeraða til þess að fá styrk til ungmennafræðslu. En með því hefir þingið og skuldbundið sig til, að styðja ungmennafræðsluna um land alt. Eiðaskólinn, unglingaskóli Austurlands, var að vísu tekinn á ríkið að öllu leyti. Er það nokkuð óheppilegt fordæmi, þar sem sanngjarnast mun vera, að ríkissjóður og hin einstöku hjeruð hjálpist að við að halda uppi ungmennafræðslunni. Enda er svo ráð fyrir gert í þessu frv. Það, að búið er að taka eitt stærsta skólahjeraðið út úr og ríkið kostar ungmennafræðslu þar að öllu leyti, ýtir mjög eftir, að gert verði allsherjarskipulag um þessi mál hið fyrsta. Það er nauðsynlegt, ef allir landsmenn eiga að vera jafnrjettháir um unglingafræðsluna, og ef þessi mál eiga ekki að eiga alt undir því, hversu duglegir einstakir þingmenn eru að ota fram sínum tota hjer á Alþingi.

Frv. gerir ráð fyrir, að helmingur stofnkostnaðar greiðist af ríkinu, þegar hjeruðin bjóða fram hinn helminginn. Gert er einnig ráð fyrir, að 75% kennaralauna sje greitt af ríkinu, ennfremur helmingur af því, sem fer til kensluáhalda og bókakaupa, og 5% af virðingarverði fasteigna skólans, sem svari til viðhaldskostnaðar. Þessa uppástungu mína um það, hvernig kostnaðinum skal skift, byggi jeg að nokkru á hinu ríkjandi skipulagi í nágrannalöndunum, Svíþjóð og Danmörku.

Viðvíkjandi skólum þessum hefir verið reynt að þræða milliveg, þannig, að ríkið hefði mikið að segja, en hjeruðin sjeu þó ekki afskift. Í frv. er farin sama leið um yfirstjórn skólanna og kostnaðinn. Yfirstjórn á að lenda að 3/4 hjá ríkinu, en 1/4 hjá sýslufjelögum og nemendum skólanna.

Skal jeg svo ekki hafa fleiri orð um frv. við þessa umræðu, nema jeg verði knúinn til þess af þeim, er síðar tala. Ungmennafræðslan er eitt mesta nauðsynjamálið af fræðslumálum þessarar þjóðar. Skólastofnanir sem þessar eru hin mestu nauðsyn fyrir sveitirnar. Bæði bókmenning og önnur menning okkar hefir ekki átt annarsstaðar styrkari stoðir en í sveitunum fyr og síðar. Skólar þessir eiga að hafa það að markmiði, að ala menn upp til þess að verða góðir þegnar síns ríkis. Skólarnir eiga ekki að byggjast á útlendum grundvelli, þó að leitað sje ráða til útlanda, heldur eiga þeir að vaxa upp úr þjóðlegri menningu, vaxa upp úr sögu þessarar þjóðar.

Jeg vil að lokum mælast til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til hv. mentmn.