12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í C-deild Alþingistíðinda. (2924)

90. mál, ungmennafræðsla

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að svara við þessa umr. öllu, sem sagt hefir verið. Mjer þykir menn taka yfirleitt vel undir, og játa, að hjér sje mikið nauðsynjamál á ferð, þó að menn velji hver sinn veg til að greiða úr þörfinni.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Dala. (BJ) og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sögðu um Eiðaskólann, skal jeg geta þess, að hann er ekki meiri gjöf en sá helmingur stofnkostnaðar, sem á að heimta af öllum öðrum hjeruðum. Þó að Austurland hafi gefið 80 þús. kr. virði, þá virðist mjer það krefjast að fá nú reist skólahús til viðbótar, sem ekki kostar minna en 80 þús. (SvÓ: 70 þús.) Þá er komið sama hlutfall milli framlags frá ríkissjóði og hjeraði, nema ef það munar þessum 10 þús., sem hv. þm. nefndi. En fyrir þessa litlu fjárhæð get jeg ekki skilið, að eitt hjerað geti keypt sjer þau sjerrjettindi, að losna við rekstrarkostnaðar alla tíð upp frá þvi. Jeg skal ekki segja, hversu auðvelt sje að breyta þessu skipulagi; jeg hefi ekkert lagt til um það, og mun ekki gera. En jeg nefndi Eiðaskólann, til að sýna, hversu knýjandi nauðsyn væri á að gera hið bráðasta fast skipulag um stofnun skólanna. Eiðaskólinn hefir fengið þau sjerrjettindi, sem ekki eru líkur til að önnur hjeruð landsins fái. Mjer er kunnugt um, að fjvn. hefir mál þessi til umræðu, að því er snertir styrk til Suðurlandsskólans. Sunnlendingar vilja nú hrinda af stað sínu skólamáli hið fyrsta. Skólinn á Laugum er þegar reistur. Og þó að ekki væri að ræða um aðra skóla en þessa tvo, sem komnir eru á laggirnar, þá er nauðsynlegt að gera sjer það ljóst, hverjir eigi að bera kostnaðinn og í hvaða hlutföllum.

Jeg ætla ekki að svara hv. þm. Dala. (BJ) neinu að þessu sinni. Tilllögur hv. þm. Dala. koma eflaust hjer til umtals við 2. umr. þessa máls. Þó vil jeg geta þess, að jeg fann þegar mikinn stefnumun milli mín og hv. þm., og getur hann því vart átt langa samleið við þá stefnu, sem í frv. felst.