11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í C-deild Alþingistíðinda. (2927)

92. mál, slysatryggingar sjómanna

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og tekið er fram í greinargerð þessa litla frv., þá er það borið fram vegna þess, að jeg er ekki viss um, að frv. það hið mikla á þskj. 100 nái fram að ganga á þessu þingi. Það er, eins og allir vita, mikill lagabálkur og um mörg nýmæli þar að ræða, sem heimta nákvæma athugun og yfirvegun, en hinsvegar sjá allir nauðsynina á því, að breyta ýmsum ákvæðum í lögunum um slysatryggingar sjómanna og telja, að það megi ekki dragast lengur.

Einkum hefir mönnum orðið það ljósara og ljósara nú í vetur, er svo margir hverfa úr hópi sjómanna og farast, en einkum þó eftir mannskaðveðrið mikla. Menn finna betur og betur, að slysatryggingarlögin eru ónóg og koma ekki að því haldi eða gagni, sem ætlast var þó til. Einkum á þetta sjer stað, þar sem sjerstaklega stendur á, t. d. þar sem ekkja á í hlut með mörg börn í ómegð, enda munu allir sammála um það, að bæturnar þyrftu að vera meiri og ríflegri. Jeg skal að vísu játa, að jeg hefði kosið að hafa bæturnar hærri en hjer er farið fram á, t. d. 1000 kr. handa hverju barni, en jeg sá mjer það ekki fært að svo stöddu, því að þá hefðu iðgjöldin orðið of há.

En auk þess sem hjer eru hækkaðar öryrkjabætur, er og ætlast til, að dánarbætur nái einnig til fósturforeldra, hafi þau verið á framfæri hins látna. Það hefir sýnt sig nú hin síðari ár, að fósturforeldrar, sem kostað hafa að öllu leyti uppeldi hins látna, hafa engar bætur fengið, en foreldrarnir, sein aldrei skiftu sjer hið minsta af barninu eða uppeldi þess, þau hafa notið allra dánarbótanna. Þetta er ranglæti, sem sjálfsagt er að leiðrjetta. Jeg þekki tvö sorgleg dæmi, sem nýlega hafa komið fyrir. Bláfátæk kona, sem ól algerlega upp mann, sem nýlega er látinn, og hafði lagt henni fje til framfæris um nokkur ár, svo að hún lenti ekki á sveitinni, stendur nú uppi allslaus og getur ekkert unnið fyrir sjer, en faðirinn, sem aldrei hirti hið minsta um soninn, hann fær allar dánarbæturnar. Gömlu konunnar, sem komin er að fótum fram, bíður ekki annað en hreppurinn, og jeg þekki annað dæmi þessu líkt að vestan, og fleiri munu þau vera.

Jeg hefi athugað, hvort sjóðurinn mundi fær um að bera þessa hækkun útgjaldanna með því fyrirkomulagi, sem frv. fer fram á, og jeg hefi komist að raun um, að hann muni geta fremur borið þessa hækkun, eða 750 kr. dánarbætur til barna, verði frv. samþ., heldur en þær 200 krónur, sem ákveðnar eru með því fyrirkomulagi, sem nú er, og komast þó eins vel af. Og t. d. 1924 vantar mikið á, að iðgjöldin nemi þeirri upphæð, sem greidd hefir verið úr sjóðnum, eða dánarbæturnar verið talsvert hærri iðgjöldunum. Og hvað mundi þá verða í ár, eins og mannskaðarnir eru þegar orðnir á þessum 2 mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári.

Þá er sjerstakt nýmæli í frv. þessu, að stærri útgerðin beri þyngri byrðarnar. Þetta mætir nú ef til vill andstöðu, en ætli þó ekki að vera, því að þessir menn standa að mörgu leyti betur að vígi. Minni útgerðin (eða 12 tonna bátar) eru ekki færir um að bera hærri iðgjöld en nú. það má að vísu segja, og jeg geri enda ráð fyrir, að mjer verði núið því um nasir, að það sje misrjetti í þessari tillögu, að láta þá, sem stunda sjó á gufuskipum, þar sem minst hætta er á slysum, bera hærri gjöld en þá, sem eru á móforbátum, því óneitanlega er hættan meiri þar. En það er aðgætandi, að hjer er um einskonar samábyrgð eða samtrygging allra sjómanna að ræða, enda býst jeg við, að enginn sjómaður eða stærri útgerðarmaður beri á móti því, að sanngjarnt sje, að þeir borgi dálítið meira, þó að minni hættur sjeu.

Annars finst mjer rjett að geta þess í þessu sambandi, að sjóður slysatryggingar sjómanna var í árslok 1924 283 þús. kr., en þar frá má svo draga 44 þús. kr., sem eru ógoldnar bætur frá árinu 1924, bætur, sem fyrst voru úrskurðaðar eftir áramót. Auk þess má nefna það, að eftir því sem næst verður komist, munu slysin í febrúar kosta sjóðinn um 60 þús. kr. Og er þá auðsætt, að saxast fer á sjóðinn, og ekki að gera ráð fyrir, að hann þoli mikla skelli úr þessu, verði starfsemi hans ekki breytt.

Mjer hefir komið til hugar að skjóta því til hv. allshn., sem fær þetta frv., ásamt hinu á þskj. 100, hvort hún muni ekki sjá sjer fært að slysatrygging sjómanna verði eftirleiðis sjerstök deild innan slysatryggingar ríkisins. Sje sjóðnum vel stjórnað og skynsamlega, þá ætti sú deild slysatryggingar ríkisins að vera sjerstaklega vel trygð og fær um að mæta þeirri brýnu þörf, sem á því er, að tryggja sjómannastjettina öðrum stjettum fremur og betur, enda er þar að ræða um þá stjett, sem mest hvílir á hið fjárhagslega sjálfstæði þjóðfjelagsins.

Jeg skal taka það fram ennþá einu sinni, að jeg vil alls ekki á nokkurn hátt með frv. þessu verða þess valdandi, að frv. á þskj. 100 dagi uppi að þessu sinni. En sjái hv. deild vandkvæði á, að það komist fram á þessu þingi, vona jeg, að þessu mínu frv. verði lofað að ganga áfram, því að það er áreiðanlega til mikilla bóta.

Að svo mæltu þykist jeg ekki þurfa að sega fleira, en vona, að frv. fái að ganga til 2. umr. og til allshn.