11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í C-deild Alþingistíðinda. (2928)

92. mál, slysatryggingar sjómanna

Jón Baldvinsson:

Jeg skal strax taka það fram, að jeg er sammála hv. flm. (JAJ) um að hækka dánarbætur þeirra manna, sem farast af slysum, en um hitt, sem frv. hans fer fram á að breyta, er jeg ekki jafnviss um að sje rjett. Að minsta kosti eru tillögur hans um breytingu á iðgjöldum alveg öfugar við það, sem stjórn slysatryggingarinnar hefir látið uppi. par segir, að hættan sje minst á gufuskipum, og þó ætlast frv. til, að iðgjöldin sjeu hærri af þeim.

Þá var hv. flm. (JAJ) að tala um, að hann vildi halda slysatryggingu sjómanna sem sjerstakri deild innan hinna almennu trygginga. Þessu er jeg á móti, enda er jeg sannfærður um, að slysatryggingu sjómanna yrði styrkur að því, að renna saman við hinn almenna sjóð, og því engum til bóta, að sjómenn hafi sjóð út af fyrir sig.

Annars er jeg hv. flm. (JAJ) sammála um það, að hækka þurfi dánarbæturnar, en hinsvegar lít jeg svo á, að frv. mitt á þskj. 100 eigi að ganga fram á þessu þingi, ekki kanske eins og það er nú, heldur með breytingum, er til bóta væru, og er það sjálfsagt að taka tillit til þess, er hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hefir fram að færa.