11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í C-deild Alþingistíðinda. (2938)

95. mál, kynbætur hesta

Flm. (Jón Sigurðsson):

Jeg skal ekki þreyta menn með langri framsögu um þetta mál. Aðeins vil jeg geta þess, að frv. er flutt samkv. ósk Theódórs Arnbjarnarsonar, ráðunauts Búnaðarfjelagsins. Hann er sá maður, sem sjerstaklega hefir um mál þessi hugsað og mun betur að sjer í þessum efnum en flestir eða allir aðrir hjerlendir menn, og má þessvegna óhætt treysta. því, sem hann leggur til þessara mála.

Um kynbætur hrossa eru í núgildandi lögum tvennskonar ákvæði. Fyrst og fremst mæla lög svo fyrir, að graðhestar, 11/2 árs eða eldri, megi ekki ganga á afrjettum. Í öðru lagi eru til gömul lög, frá árinu 1891, sem heimila sýslunefndum að gera samþyktir um kynbætur hesta. En það er nú svo með þau lög, að enda þótt þau sjeu nú 34 ára gömul, þá hafa þau enn ekki komið svo að notum sem skyldi. Bæði er það, að margar sýslunefndir hafa ekki notað þar gefna heimild til að setja samþyktir um þessi efni, og í annan stað hafa þær samþyktir, sem gerðar hafa verið, oft verið mjög mismunandi að efni til. Stafar það af því, að ekkert sjerstakt form hefir verið gefið fyrir samþyktir þessar, svo að hver sýslunefnd hefir getað sniðið þær eftir sínu höfði, án þess að gæta samræmis við önnur sýslufjelög. Ennfremur hefir þótt brenna við, að samþyktunum væri slælega framfylgt, og ef til vill enn ver hlýtt.

Það er skoðun mín og margra annara, að kynbætur hrossanna okkar sjeu eitt af mikilsverðustu umbótamálum okkar bændanna. Það verður því að hefjast handa, frekar en gert hefir verið hingað til, ef við eigum ekki að standa nálega í stað, en það er sama og að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Í frv. þessu eru mörkuð nokkur helstu undirstöðuatriðin, sem hrossakynbætur hjer á landi verða að byggjast á.

Því er oft haldið fram, að aukin ræktun landsins sje grundvöllur allrar hagsældar í sveitunum. En til þess að ræktun landsins geti gengið greiðlega, þurfum við að eignast þroskameiri og betur bygða hesta en við höfum yfirleitt átt hingað til. Og að hægt sje að bæta hestakynið að stórum mun, þarf enginn að efa. Það hefir greinilega verið sannað, svo að ekki verður um vilst. Þarf ekki annað en benda á hið landfræga Melstaðarkyn, sem skarar langt fram úr flestum öðrum, einungis vegna þess, að nokkrir einstaklingar hafa haft skilning og e. t. v. að sumu leyti betri aðstöðu en alment gerist til að beita sjer fyrir máli þessu. Þessvegna hefir þar tekist að skapa hestakyn, sem ber langt af flestum öðrum kynjum.

Það má því ganga út frá því sem gefnu, að ef almenningur fæst til að taka höndum saman í þessu efni, þá verður hægt að bæta hestakyn hjer á landi mjög mikið og á marga vegu. En hitt er líka áreiðanlegt, að almennar umbætur á þessu sviði verða aldrei að verulegu liði, fyr en settar verða skýrar og ákveðnar skorður fyrir það, að einstakir menn geti með kæruleysi ónýtt það starf, sem aðrir hafa unnið. Hjer er farið fram á að lögfesta nokkur ákvæði, sem eru alveg nauðsynleg og sjálfsögð, ef einhver verulegur árangur á að fást af kynbótastarfinu.

Jeg vona, að mál þetta verði svo mikilsvert í augum hv. landbn., sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að hún hraði afgreiðslu þess eftir föngum, svo að það nái fram að ganga á þessu þingi, enda þótt það sje svona seint fram komið.

Að endingu skal jeg aðeins geta þess, að í 1. gr. frv. væri líklega rjettara að nota orðið „hrossakynbótanefnd“ en „kynbótanefnd“, svo að síður geti orkað tvímælis, hvert verksvið nefndinni er ætlað. Reyndar ber fyrirsögn frv. og efni þess að öðru leyti með sjer, að hjer er aðeins um hrossakynbætur að ræða, og að nefnd þessi á því engin afskifti að hafa af kynbótum annars búpenings en hrossa, enda er það óskylt mál.