08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

95. mál, kynbætur hesta

Jón Sigurðsson:

Jeg skal reyna að gefa ekki tilefni til mikilla málalenginga, og það því fremur, sem hv. frsm. (PÞ) fór mjög hógværlega á stað og setti okkur ekki á knje sjer, eins og síðast, þegar hann var hjer á ferðinni. Líka sýndi hann mjer brtt. nefndarinnar áður en þær fóru frá nefndinni, svo að jeg hafði tækifæri til þess að athuga þær áður. Hefi jeg því borið mig saman við ráðunaut þann, sem samdi frv., og við þær athuganir komumst við að þeirri niðurstöðu, að gera þyrfti brtt. við frv., ef brtt. hv. nefndar yrðu samþyktar. Mun jeg því koma með þær við 3. umr.

Í fyrstu brtt. þeirra er talað um, að bannað skuli að láta graðhesta, 11/2 árs og eldri, ganga lausa í heimahögum eða á afrjettum, en í frv. okkar er talað um hesta á öðru ári. Að miða þetta við 11/2 árs aldur er mjög óheppilegt, því að trippi, sem eru seint köstuð, verða ekki 11/2 árs fyr en þau hafa lifað tvö sumur, og er þá stundum komið fram í október. En ekki getur komið til mála, að gelda þau á þeim tíma. Þessu þarf því að breyta. — 2. brtt. nefndarinnar, við 1. gr., tel jeg mjög óheppilega.

Síðari málsliður 3. brtt. hljóðar svo: „Heimilt er hrossakynbótanefnd að gera undanþágu frá ákvæðum 1. gr. um vörsluskyldu graðhesta, sem hún hefir valið til undaneldis.“

Hjer er ekkert tekið fram, hversu víðtæk þessi heimild skuli vera. Þó er í brtt. við 5. gr. tekið fram, að hittist gæslulaus hestur, án heimildar, innan eða utan sveitar, þá megi taka hann í örugga gæslu.

Jeg held, að best yrði að taka sporið hreint, og aftaka með öllu, að slíkir hestar mættu ganga gæslulausir, hvort heldur væri á fjalli eða heima í högum.

Við 4. brtt. nefndarinnar, sem er við

3. gr., hefi jeg ekkert að athuga; hún er að mestu tekin orðrjett eftir frv. okkar.

Í 2. málsgrein 5. brtt. segir: „Nú vanrækir eigandi eða umráðamaður að láta gelda hest sinn, og skal hann þá sekt gjalda og skaðabætur, ef tjón hlýst af.“

Jeg get búist við, að þetta sýnist eðlilegt fyrir þeim, sem ókunnugir eru, en vafalaust er það óheppilegasta ákvæðið, og getur alls ekki komið til greina, nema hesturinn sje í heimahögum eða á girtu svæði. Um hesta á afrjetti getur hjer ekki verið að ræða. Hugsum okkur t. d., að reknar væru saman 300 –400 hryssur í eina rjett, og með þeim væru 3–4 folapjakkar, og haustið eftir kæmu 50 af þeim með síðgotunga. Hver ætli geti kanske sagt um, hvað af þessum folum hafi verið valdir að tjóninu. Mjer þætti gaman að sjá hv. þm. Mýramanna leiða rök að því.

Þá hefir nefndin tekið upp nýja reglu, að því er sektirnar snertir. Jeg tel það samt ekki stórvægilegt atriði, en finst það þó óviðkunnanlegt, að hálft sektarfje skuli eiga að renna til þeirra sveitarfjelaga, þar sem maðurinn er búsettur í, sem ljóstar brotinu upp, enda þótt enginn skaði hafi þar orðið. Hv. frsm. gat ekki sannfært mig um nauðsyn þessarar breytingar.