08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

95. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Ákvæðið um aldur hesta, sem ganga mega lausir, tók nefndin upp úr núgildandi lögum frá 14. nóv. 1917, alveg orðrjett. Jeg skal ekki hafa á móti því, að hentugra geti verið að orðalagið sje svo: „hestar á öðrum vetri“ í stað „hestar 11/2 árs“, eins og nefndin tók upp úr lögunum. Annars tel jeg þetta atriði ekki miklu máli skifta.

Þá vjek hv. 2. þm. Skagf. (JS) að kynbótanefndunum. Taldi hann óeðlilegt, að þær væru eigi í þessum lögum, jafnt fyrirskipaðar í þeim hjeruðum, þar sem kynbótasamþyktir eru, sem annarsstaðar. Jeg held, að þetta komi hvergi að sök. Að vísu má vera, að til sjeu þau hjeruð, þar sem til eru kynbótasamþyktir, en eigi kynbótanefndir. En alstaðar, þar sem jeg þekki til, bæði í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendi og Snæfellsnesi, fer þetta saman. Og þar eru nefndirnar alstaðar skipaðar 3 mönnum í hverjum hreppi, eins og einmitt frv. fer fram á. Jeg skal ekki segja, hvernig ástandið er á Norðurlandi í þessu efni. En þó að svo væri, að slíkt hjerað væri til, myndi það þegar neyðast til að koma upp nefnd, því að annars eiga þau alt á hættu. (JS: Því má þetta ákvæði ekki vera í lögum?) Af því að það er óþarfi, að hafa lögin orðfleiri en þörf er á. Þetta er því eigi óeðlilegt, því að hvar sem kynbótasamþykt er, hlýtur nefnd að vera skipuð. Menn eru blátt áfram neyddir til þess, ef brtt. nefndarinnar verða annars samþyktar.

Þá mintist hv. 2. þm. Skagf. (JS) á lausagöngu kynbótahesta. Jeg veit ekki, hvort jeg hefi skilið hann rjett, en mjer skildist, að hann segði, að það gagn, sem hefði hlotist af því að banna lausagöngu graðhesta, væri upp hafið með brtt. nefndarinnar. Hann tók til dæmis tvær kynbótanefndir, þar sem önnur leyfði hestum sínum að ganga lausum, en hin eigi. Ef kynbótanefnd sleppir hestum sínum, getur hún vitanlega ekki haft hemil á, hvert þeir fara. En bótin er sú, að þessir hestar eru vel merktir og auðkendir, og því er hægt að taka þá, hvar sem er, og ráðstafa þeim, svo að þeir geri ekki óskunda.

Þegar kynbótanefnd einhvers hrepps hefir leyft hestum að ganga lausum, verða þeir eigi teknir innanhrepps. En utanhrepps er leyfilegt að handsama þá, og verði þeirra ekki vitjað innan ákveðins tíma, má selja þá. Því virðist fullkomlega mega halda í hemilinn á lausagöngu slíkra hesta með sektunum, og því tjóni, sem eigandinn mundi bíða af sölu hestsins. Þessi ákvæði ættu að veita nægilegt aðhald.

Ef heil sveit stofnaði sjer í slíka hættu með því að hafa enga kynbótanefnd, yrði tjónið auðvitað enn meira. Jeg skal taka það dæmi, að Bólstaðarhlíðarhreppur í Húnavatnssýslu hafi kynbótasamþykt, en enga kynbótanefnd, og get nærri, hvað af því hlytist, ef menn sleptu þar graðhestum sínum lausum og þeir færu í Staðarhrepp í Skagafirði. Eftir ákvæðum frv. yrðu þeir seldir, og líklega ekki fyrir svo hátt verð, að eigendurnir græddu á því. Þeir mundu ekki eiga slíkt á hættu.

Þá talaði hv. 2. þm. Skagf. (JS) um það ákvæði, að þeir, er sleptu hestum sínum, skyldu gjalda skaðabætur, ef tjón hlytist af. Gerði hann lítið úr þessu ákvæði, vegna þess, hve örðugt væri að sanna, hvenær tjón yrði að eða eigi. Þetta ákvæði er að mínum dómi eins gott fyrir því. Þó að hægt væri að sanna slíkt í aðeins 5 tilfellum af 100, væri þó mikið unnið við ákvæði þetta og aðhald í því. Og jeg veit, að hjer eru þm. í deildinni, sem vilja hafa þetta ákvæði, enda þótt hv. 2. þm. Skagf. (JS) vilji það ekki.

Sama má segja um ókynbótahesta, eða óbótahesta, eða hvað á að kalla þá, að þótt þeir gangi lausir, er sjaldnast hægt að sanna, að þeir hafi valdið tjóni. En fyrir því er eigi síður þörf á að setja slík ákvæði um þá. Annars er erfitt að setja refsiákvæði, er sanni brotin jafnframt. En jeg held, að ekki hafi skort á lagaboð um þetta efni, heldur miklu fremur, að lögum þeim, sem til hafa verið, hafi verið framfylgt, og hefir það ýmsar slæmar afleiðingar. Slíkt hið sama myndi enn brenna við, þótt ný ákvæði sjeu sett, en jeg held, að þessi viðbótarákvæði við núgildandi lög geti gert mikla bót. Jeg sje ekki, að þörf sje á neinum breytingum við frv., eins og nefndin gekk frá því, nema ef vera skyldi um aldurstakmark hesta, er lausir mega ganga. Hygg jeg það þó litlu máli skifta.