08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

95. mál, kynbætur hesta

Jón Sigurðsson:

Aðeins örfá orð. — Jeg sje, að mjer hefir ekki tekist að sannfæra hv. frsm. (PÞ) nema að mjög litlu leyti, en jeg skil ekki, hve fast hann heldur í það ákvæði, að ekki skuli skipaðar kynbótanefndir, þar sem kynbótasamþyktir eru til. Virðist þó sjálfsagt, að lögin gangi hjer jafnt yfir alla. Þetta kemur heldur ekki í bág við samþyktirnar að neinu leyti, og mannafjöldi í kynbótanefndum mun alstaðar vera þrír menn, eins og frv. ákveður.

Hv. frsm. (PÞ) misskildi ummæli min um lausagöngu graðhestanna. Jeg spurði að því, hve víðtæk sú heimild væri, er kynbótanefndir hefðu til að ákveða um slíkt, og hvort það væri meiningin, að nefndirnar hefðu rjett til að sleppa þeim í afrjetti. Nefndin virðist þó yfirleitt hallast að því, að hamla slíkri lausagöngu, og hefði það því verið í meira samræmi við það, sem fyrir nefndinni hefir vakað, að ákveða heimildina ekki viðtækari en svo, að aðeins mætti láta hesta ganga lausa í heimahögum.

Enda þótt óþægilegt sje að missa hest fyrir lítið verð, þá verður og að gæta þess, að þeir, sem fyrir skaða verða, verða einnig fyrir eigi alllitlum óþægindum. Brtt. við 5. gr., um skaðabætur, er óframkvæmanleg og gagnslaus, en verður aðeins til að efla misklið manna á meðal. í brtt. stendur: „sekt og skaðabætur“, og gæti það skilist svo, að enga sekt ætti að greiða, ef eigi hlytist tjón af. Má vera, að þetta stafi af því, að greinarmerki vanti.